140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

frumbyggjaveiðar á hval.

454. mál
[16:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála því, það dettur engum manni í hug að halda því fram að veiðar á stórhval sem eiga sér tiltölulega stutta sögu hér, í atvinnuskyni og til útflutnings, geti átt nokkuð sameiginlegt með því sem menn viðurkenna sem frumbyggjaveiðar. Ég nefndi einmitt að hin umræðan hefði svo sem komið upp um hvort hrefnuveiðar og veiðar á minni skipum frá ströndinni væru nær því að geta flokkast sem slíkar. Ég var stuðningsmaður sömu stefnu og hv. þingmaður nefndi og vitnaði þar til Skúla Alexanderssonar, fyrrverandi hv. þingmanns. Ég tel að við höfum gert mistök á níunda áratugnum að gera ekki skýrari greinarmun í framgöngu okkar þá í hrefnuveiðunum og stórhvalaveiðunum, en það var ekki gert eins og kunnugt er. Hrefnuveiðarnar lögðust af en menn héldu áfram veiðum á stórhval um tíma.

Ég sé ekki hvers vegna Ísland ætti að hafa horn í síðu þess að frumbyggjar fái að veiða þar sem samkomulag er um að þeir fái að veiða með sínum hefðbundnu aðferðum. En svo getur hitt vel verið að ekki sé lengur sá munur á því og áður var.

Hvalveiðar á Íslandi ættu sér ugglaust lengri sögu ef ekki hefði verið bjargarleysið, fátæktin og eymdin sem gerðu það að verkum að menn áttu nánast hvergi haffær skip og gátu lítið borið sig eftir björginni. Það kom í hlut útlendinga að stunda þær veiðar áratugum eða jafnvel öldum saman fyrir ströndum Íslands og við gátum lítið að gert, við urðum að sitja í landi og bíða eftir því að hvalinn ræki á fjörur. Af því er orðið hvalreki komið, en það var auðvitað mikill búhnykkur þegar slíkt gerðist og eru til af því sögur í ýmsum sveitum.