140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

dagpeningagreiðslur.

486. mál
[16:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þessi fyrirspurn talar fyrir sjálfa sig. Hún er sprottin af ummælum hæstv. innanríkisráðherra í þessum stól um daginn og var skilað inn áður en hæstv. innanríkisráðherra fjallaði öðru sinni um málið og baðst þá afsökunar á þeim tilteknu ummælum sem hann viðhafði hér. Mér þótti þó ekki ástæða til að draga fyrirspurnina til baka, annars vegar vegna þess að það er ágætt að ráðherranum gefist færi á því að svara hér í stólnum og endurtaka þá orð sín frá því um daginn, og hins vegar vegna þess að þetta er mál sem rétt er að ræða.

Dagpeningar eiga auðvitað ekki að vera neins konar umbun í sjálfu sér heldur eiga þeir að vera ósköp eðlilegur farareyrir eða veganesti fyrir þá sem þjóðin eða sveitarfélögin senda í sínum erindum til útlanda. Slík erindi eru algjörlega sjálfsögð og verða alltaf sjálfsagðari og sjálfsagðari eftir því sem tímar líða, í Evrópusambandinu eða utan Evrópusambandsins. Við þurfum að búa þannig um að ekki verði nein tortryggni á ferðinni gagnvart þessum greiðslum, farareyrinum. Auðvitað þurfum við líka að búa þannig um að hér sé ekki um neins konar ívilnun eða umbun að ræða heldur ósköp einfaldlega hluta af starfi þeirra sem við þetta vinna. Þá þarf kannski að taka tillit til annarrar íhlutunar og umbunar sem þessu getur fylgt. Ég nefni af því tilefni, af því að ég er að spekúlera í því þessa dagana, töluverða undantekningu frá tollalögum sem ferðamönnum af öllu tagi stendur hér til boða.