140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

dagpeningagreiðslur.

486. mál
[16:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er þörf og góð umræða. Dagpeningar, þar sem allir fá greitt jafnt, eru ein leið til að leysa þann vanda. Önnur leið er sú að menn fái greitt samkvæmt reikningi. Svo er líka leið þarna á milli sem segir að menn fái helminginn greiddan samkvæmt reikningi og helminginn með dagpeningum. Ég held að við ættum að stefna að því til að auka hvata manna til að þetta fari ekki úr böndum.

Vildarpunktarnir sem flugfélögin veita um allan heim gleymast í þessari umræðu. Ég vildi gjarnan að menn ræddu þá ítarlega hér vegna þess að þar er flugfarþeginn njótandi en annar borgar, þ.e. atvinnurekandinn borgar en flugfélögin veita einstaklingnum sem notar þjónustuna vildarpunkta. Það finnst mér afskaplega ósiðlegt og óeðlilegt. Það mundi ég vilja sjá hverfa.