140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

dagpeningagreiðslur.

486. mál
[17:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég gerði að vísu ráð fyrir að þau væru í þeim dúr sem reyndin varð og tek undir það með öðrum að sömu reglur gildi um alla starfsmenn eins og kostur er. Það kann að vera munur á því eftir erindum og búnaði manna sem hæfa þykir og ég ítreka það sem ég sagði að þessi farareyrir þarf að vera hafinn yfir allan vafa.

Ég tek undir það með hv. þm. Pétri Blöndal að eitt af því sem er óvenjulegt við þetta, fyrir utan tollfríðindin sem ég nefndi í fyrri ræðu minni, er að menn á vegum ríkisins fái í sinn persónulega sjóð þessa vildarpunkta sem auðvitað ættu að vera hjá eiganda þess fjár sem kostar menn til fararinnar. Um þetta hefur verið spurt á þingi. Mig minnir að á kjörtímabilinu 2003–2007 hafi Jóhann Ársælsson þingmaður spurt um þetta og fengið ákaflega fátækleg svör. Þau voru þannig að flugfélagið, því að það var aðallega um eitt flugfélag að ræða, neitaði að breyta nokkrum hlut í þessu og Jóhann spurði þá í framhaldinu hvort ekki mætti endursemja við flugfélagið þannig að vildarpunktarnir rynnu til ríkisins og ekki til þeirra einstöku starfsmanna sem um ræddi. Við því fengust heldur engin svör.

Óréttlætið felst auðvitað ekki í því að menn horfi öfundaraugum á menn safna punktum til að nota í sumarleyfinu sínu, það er bara eins og það er. Hið ósanngjarna er að þeir sem starfa við það að fara fyrir okkur í ferðalög njóti þess sérstaklega miðað við þá sem ekki starfa við það fyrir okkur heldur við aðra þarflega iðju sem öllum kemur vel.