140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

viðbrögð grunn- og framhaldsskóla við hegðunarvanda.

506. mál
[17:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að taka upp þetta mál sem ég held að sé mjög jákvætt að við ræðum hér. Sannast sagna vil ég byrja á því að minna á það að 10. júní í fyrra samþykkti Alþingi breytingar á 30. gr. laga um grunnskóla. Þar var sett inn sérstök grein um skólabrag og þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Grunnskólar skulu hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun. Áætlun skal m.a. framfylgt með því að hver skóli setji sér skólareglur [og tilgreini] hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.“

Reglugerð nr. 1040/2011, um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, er svo sett á grundvelli þessara breytinga. Hún var unnin í nánu samráði við hlutaðeigandi aðila og hefur verið kynnt ítarlega, m.a. fyrir öllum skólanefndum sveitarfélaga í landinu. Í niðurlagi 13. gr. þessarar reglugerðar er gert ráð fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga taki saman leiðbeiningar þar sem meðal annars er kveðið á um verklag og viðbragðsáætlanir innan skóla og viðeigandi utanaðkomandi aðstoð vegna óásættanlegrar eða skaðlegrar hegðunar nemenda. Sambandið hefur lagt drög að slíkum leiðbeiningum í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og það má búast við að þær liggi fyrir innan tíðar.

Mér finnst mikilvægt að við horfum á þetta út frá þessu því að það má segja að þegar við fórum að skoða þessi mál sem mig minnir að hafi verið fyrst út frá eineltismálum, töldum við að við þyrftum virkari lagastoð í lögum um grunnskóla til að geta sett nánari reglur um þessi mál. Ég er mjög bjartsýn á að þetta muni hafa þau áhrif sem hv. þingmaður kallar eftir, að þessi viðbrögð verði samræmdari milli grunnskóla sem starfi þá samkvæmt sömu leiðbeinandi reglum.

Ég hef fengið viðbrögð úr skólasamfélaginu og mér finnst það bregðast mjög jákvætt við þessu. Fólk er ánægt með að fá samræmingu og geta leitað á einn stað eftir leiðbeiningum um þessi mál.

Núna hefur verið samið frumvarp til breytinga á lögum um framhaldsskóla sem er svipuð breyting og ég lagði til á grunnskólalögunum í fyrra, þ.e. að framhaldsskólar skuli setja sér stefnu með þessum hætti. Þá gerum við líka ráð fyrir að setja reglugerð af svipuðum toga því að við teljum að þetta eigi ekki síður við um framhaldsskólann en grunnskólann. Það eru breyttir tímar og börn eru börn til 18 ára aldurs og það held ég að kalli á að skólarnir fylgi þessu.

Hv. þingmaður nefnir hins vegar það hvernig grunn- og framhaldsskólar taka núna á málum sem tengjast hegðunarvanda, til að mynda brottvísun úr skóla. Við höfum ekki gert sérstaka úttekt á því hvernig grunn- og framhaldsskólar taka á málum sem tengjast börnum og ungmennum með hegðunarvanda. Hins vegar er í hverri einustu úttekt sem er gerð á skólastofnun spurt út í þessi mál þannig að við höfum allnokkur gögn, þ.e. við skoðum þá skólabrag og óskum eftir tillögum um úrbætur ef þörf krefur. Í langflestum tilvikum er að mati úttektaraðila skólabragur jákvæður en það eru líka dæmi um hið gagnstæða og þá höfum við fylgt því eftir í ráðuneytinu.

Eitt af því sem kemur fram í þessum gögnum er að einstakir grunnskólar hafa á undanförnum árum tekið upp og innleitt ýmiss konar agastjórnunarkerfi sem þeir nýta sér samhliða skólareglum. Okkur hafa einnig borist erindi og kærur á undanförnum árum sem gefa vísbendingar um að í skólum sé tekið með mismunandi hætti á málum sem tengjast hegðunarvanda nemenda sem og ýmsum réttindamálum þeirra. Á döfinni hjá okkur er því að framkvæma athugun á beitingu agastjórnunarkerfa til að halda uppi aga í grunnskólum, hvernig frávikshegðun er skilgreind samkvæmt skólareglum og hvaða agaviðurlögum er mælt fyrir um í slíkum kerfum. Þá fáum við heildarsýn á þetta. Eins og ég segi höfum við aflað þeirra upplýsinga sem við höfum með úttektum á hverri og einni stofnun þar sem mjög margt fleira er undir en við teljum fulla ástæðu til þess, í ljósi þess að þetta virðist mjög mismunandi, að gera heildstæða úttekt.

Hvað varðar framhaldsskólana í þessum efnum hefur ráðuneytið fylgt því eftir að skólameistarar fari að stjórnsýslulögum vegna viðbragða við hegðunarvanda og á því skólastigi er líka mjög mikilvægt að taka tillit til lögræðisaldurs nemenda og hafa samráð við foreldra þeirra nemenda sem eru yngri en 18 ára.