140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

viðbrögð grunn- og framhaldsskóla við hegðunarvanda.

506. mál
[17:13]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna sérstaklega þessari umræðu sem er brýn og mikilvæg og þyrfti að eiga sér meira pláss í sölum þings að jafnaði því að velferð barna okkar er eitt brýnasta hagsmuna- og mannréttindamál sem kemst til tals hverju sinni. Börnum er meira en helming barnæsku sinnar gert að skyldu að sækja skóla og það er stórt orð, skólaskylda, og þess vegna ber hinu opinbera að reyna með öllum ráðum, lögum og reglum að láta börnum líða vel í skólanum. Við þekkjum mörg þess dæmi að misjafnlega er tekið á hegðunarvanda. Stundum eru þetta fórnarlömb eineltis, stundum gerendur í eineltismálum, en misjafnlega er tekið á málum og ég hlýt að fagna sérstaklega því sem hæstv. ráðherra sagði um að skoða eigi heildstætt hvernig tekið er á þessum málum milli skóla í landinu. Umræðan er þörf.