140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

viðbrögð grunn- og framhaldsskóla við hegðunarvanda.

506. mál
[17:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna orðum hæstv. menntamálaráðherra sem kom því hér á framfæri að svo virðist sem tekið sé talsvert mismunandi á þessum málum milli skóla en núna eigi að gera einhvers konar leiðbeinandi reglur um verklag vegna hegðunarvanda. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið það upp í samráði við menntamálaráðuneytið. Þessi drög eru í vinnslu og reglurnar sjá þá brátt dagsins ljós sem ég fagna mjög af því að þá er einhver rammi til að vinna eftir. Menn geta þá væntanlega borið skólana betur saman inn í framtíðina varðandi það hvernig þeir taka á þessum málum. Ég skil að þetta geta verið mjög flókin, viðkvæm og þung mál. Það togast á, ef það er mikill hegðunarvandi í skóla þyngist allt skólastarf. Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir þann sem rekinn er úr skóla eða vísað á brott á einhvern hátt, hvað þá ef hann fær ekki sína lögboðnu skólavist og ekki er greitt úr því í framhaldinu. Þá er það mjög þung staða fyrir viðkomandi barn og ungmenni.

Ég fagna því mjög að það eigi að taka á þessu. Svör hæstv. ráðherra finnst mér staðfesta líka það sem ég hef heyrt hjá þeim sem vinna í þessum geira, að skólar hafa tekið of mismunandi á þessum málum. Væntanlega eru einhver börn og ungmenni í samfélaginu hálfgerð fórnarlömb þess að þeim hefur verið vísað úr skóla fyrir jafnvel of litlar sakir og hafa þurft að fá mikla aðstoð í kjölfarið. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um að núna eigi að koma upp samræmdum reglum að þessu leyti.