140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

fækkun refs og minks.

247. mál
[17:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Það verður seint sagt að umræðan á fyrirspurnadegi sé einsleit í dag, víða er komið við, þar á meðal í dýraríkinu og svo verður um sinn. Víkur nú sögunni að þeim félögum ref og mink sem eru eins og dæmin sanna víða mjög til trafala í byggð, hringinn í kringum okkar fagra og tilkomumikla land. Áhyggjur margra sveitarfélaga af fjölgun refs og minks og ágengni þessara rándýra víða um land, þar á meðal í friðlöndum, eru ærnar og miklar og komnar til af margvíslegum tilefnum sem of langt mál væri að telja upp hér. En í ljósi þess hvað þessi umræða er í reynd hávær þegar þingmenn setjast niður með sveitarstjórnarmönnum finnst mér tilefni til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra nokkurra spurninga er varða ref og mink.

Eru þær eftirfarandi:

1. Hvaða áætlanir eru uppi í ráðuneytinu um fækkun refs og minks í og við byggð á landinu?

2. Hvert er líffræðilegt mat á refa- og minkastofnum landsins nú um stundir?

3. Hver er kostnaður ríkisvaldsins af fækkun refs og minks og hvernig hafa framlög þróast frá árinu 2006?

4. Hver er áætlaður kostnaður sveitarfélaga af fækkun refs og minks og hvernig hefur kostnaður þeirra þróast frá 2006?

5. Kemur til greina að flytja málaflokkinn alveg yfir til sveitarfélaganna?

6. Kemur til greina að gera einstök sveitarfélög að tilraunasveitarfélögum í þessu efni?

Þetta efni hefur svo sem ekki farið hátt í fjölmiðlum landsins en er giska alvarlegt mjög víða um land eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, frú forseti. Ég nefni til dæmis Mývatn sem er eitt helsta og tilkomumesta griðland fugla hér á landi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Þar hefur ásókn refs og minks aukist tiltölulega mikið á undanliðnum árum og svo er reyndar um fleiri svæði sem eiga að heita náttúruperlur.

Hér er um virkilega ógn að ræða fyrir sveitarfélögin, fyrir viðkomandi dýr að sjálfsögðu og fyrir ferðaþjónustu í öllu sínu veldi. Sá atvinnuþáttur fer mjög vaxandi hér á landi og væri mjög miður ef ekkert væri að gert til að stemma stigu við aukinni ásókn refs og minks inn á þau lönd sem við alla jafna viljum hleypa hvað flestum ferðamönnum inn á. Þess vegna eru þessar spurningar settar fram og ekki síður vegna áminninga sveitarstjórnarmanna í þá veru að hér verði að grípa inn í ferli sem er orðið ískyggilegt.