140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

fækkun refs og minks.

247. mál
[17:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja það strax að ég er mjög ósammála þeirri stefnumörkun að hætta stuðningi ríkisins við refaveiðar. Það er full ástæða til að halda þeim stuðningi áfram. Refum hefur fjölgað gríðarlega mikið á síðustu fjórum áratugum úr tæplega 2 þús. dýrum í 8–10 þús. dýr, að mati forstöðumanns Melrakkaseturs í Súðavík.

Það er ljóst að þessi mikla fjölgun hefur haft mikil áhrif á lífríkið að öðru leyti, meðal annars á fuglalífið. Nú eru menn að reyna að bregðast við með því að banna veiðar á tilteknum fuglategundum en þá verður auðvitað að hafa í huga að fjölgun refa hefur umtalsverð áhrif á þessar fuglategundir. Þegar hæstv. ráðherra segir að fylgja eigi þeirri stefnu að reyna að draga úr tjóni af völdum refsins verður það auðvitað ekki gert nema meðal annars með veiði. Þá vaknar þessi spurning: Er það verkefni fámennu, dreifbýlu sveitarfélaganna að gera það eða á ríkið að koma að því? Auðvitað á þetta að vera samfélagslegt verkefni sem ríkið kemur að.

Í dag er það þannig að veiðarnar á ref eru tekjustofn fyrir ríkið vegna þess að þær útheimta (Forseti hringir.) greiðslu á virðisaukaskatti. Ríkið hefur með öðrum orðum refaveiðarnar sem sjálfstæðan tekjustofn en leggur ekkert af mörkum. (Forseti hringir.) Það er auðvitað algjörlega rangt og þessu þarf að breyta og um það hef ég flutt frumvarp.