140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

fækkun refs og minks.

247. mál
[17:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu, tek að mörgu leyti undir það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði í innleggi sínu. Það er einmitt svo að lítil og fámenn sveitarfélög eiga erfitt um vik í þessu efni — það er kannski ekki réttmætt að kalla þau lítil vegna þess að í mörgum tilvikum eru þau fámenn en mjög stór og dreifbýl og þurfa því að kosta meiru til en ella við að útrýma minki, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, og fækka ref.

Við viljum ekki útrýma refnum vegna þess að hann er jú kannski eina landnámsdýrið okkar að uppruna sem kom hingað til lands löngu á undan manninum og hefur búið á þessari túndru um aldir. En honum hefur fjölgað og þess vegna tek ég undir þá gagnrýni sem sett hefur verið fram, meðal annars af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og fleirum, þar á meðal sveitarstjórnarmönnum, að ríkið eigi að sinna þessum málum, þ.e. að taka á fjölgun refs og þeirri ógn sem hann veldur í dýraríkinu, meðal annars í friðlöndum landsins.

Spyrja má hvort ríkið vilji koma þessum málaflokki í hendur sveitarfélaga eins og öðrum verkefnum sem hafa verið flutt frá ríki til sveitarfélaga og þarf ekki að telja upp öll þau verkefni í þessum stól. Eins finnst mér koma fyllilega til greina að athuga hvort vert sé að koma þessu fyrir sem tilraunaverkefni á vegum þeirra sveitarfélaga sem mest eiga undir, ég nefndi í fyrri ræðu minni til dæmis Mývatnssveit eða öllu heldur Skútustaðahrepp, og ef til vill fleiri sveitarfélaga sem eiga mjög mikið undir.

Almennt séð, telur ráðherra að ríkið eigi að nýju að taka upp greiðslur til að stemma stigu við fjölgun refs?