140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

heimilissorp.

248. mál
[17:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér að máli þar sem mér hefur sýnst við Íslendingar vera eftirbátar annarra þjóða í nágrenni okkar á undanliðnum árum og áratugum.

Þegar sá sem hér stendur var í Danmörku fyrir áratugum, upp úr 1980, tók hann eftir skringilegum hlut sem var fyrir framan hvert heimili í Danmörku og kallaði á flokkun sorps og hafði ég þá aldrei séð viðlíka tunnur og voru framan við hvert heimili Dana á þeirri tíð. En vel að merkja, það eru bráðum 30 ár síðan og Danir og aðrar þjóðir í nágrenni okkar höfðu þá flokkað sorp frá heimilum sínum um árabil og þekktu vart annað.

Nú 30 árum síðar er þessi málaflokkur engan veginn á Íslandi. Nokkur sveitarfélög úti á landi, allmörg reyndar, eru farin að flokka sorp með prýðisgóðum árangri. Get ég þar nefnt Akureyrarbæ sem dæmi. Fleiri lítil sveitarfélög, mun minni en Reykjavík, eru komin alllangt í þessa veru og árangurinn er sýnilegur. Almennt sorp hefur minnkað til muna við flokkunina fyrir utan það að verðmætasköpun er einn af ávinningum flokkunar heimilissorps eins og menn þekkja.

Ég spyr því hæstv. umhverfisráðherra eðlilegra spurninga í framhaldi af þessari umræðu:

Hvað líður samræmdum reglum um flokkun heimilissorps á landinu? Getur ríkið með einhverjum hætti komið þar að málum? Sá sem hér stendur telur fyllilega ófært að Íslendingar standi nú, 30 árum eftir að aðrar þjóðir tóku slíkt upp, nokkurn veginn í sömu sporum hvað það varðar að stór og jafnvel stærstu sveitarfélögin hér á landi hafa ekki enn tekið upp flokkun heimilissorps.

Ég spyr jafnframt: Hversu mörg sveitarfélög á landinu hafa tekið upp flokkun heimilissorps? Hver er ætlaður sparnaður samfélagsins ef tekin yrði upp flokkun alls heimilissorps? Auðvitað er erfitt að meta sparnaðinn af flokkun en ég hef rætt við þá sem hér höndla um mál og þeir telja að sparnaðurinn sé umtalsverður, ekki síst í hugum landsmanna.