140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

heimilissorp.

248. mál
[17:45]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Fyrst örstutt varðandi fyrirspurn hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þá er því til að svara að ég hafði fengið upplýsingar um að til stæði að loka sorpbrennslunni á Klaustri í samræmi við breyttar kröfur. Ef til stendur að nýta brennsluna áfram, ef heimamenn óska eftir því, geri ég ráð fyrir að efla þurfi hreinsibúnaðinn. Ég hef ekki haft ráðrúm til að kynna mér það í smáatriðum en vandinn stafaði af margumræddri díoxínmengun sem væntanlega þarf þá að bregðast við.

Varðandi síðan lokalotu hv. fyrirspyrjanda þá er mikilvægt að halda því til haga að hér er verið að ræða um heimaflokkun sem sé í boði, þ.e. að íbúarnir geti flokkað heimilissorpið heima og skilað því við húsið. Gámastöðvar þar sem almenningur getur skilað flokkuðum úrgangi án endurgjalds eru til taks í meiri hluta sveitarfélaganna. Við erum að tala um að það sé þá hluti af sorphirðunni og því kerfi eins og til að mynda hefur verið innleitt nýlega á heimaslóðum hv. þingmanns á Akureyri.

Höfuðborgarsvæðið hefur, eins og þingmaðurinn benti á áðan, verið eftirbátur margra annarra sveitarfélaga í þessum efnum þar sem jafnvel hefur verið boðið upp á tveggja eða þriggja tunnu kerfi eins og ég vil til dæmis nefna Snæfellsnes sem hefur verið í fararbroddi þar. Ég er þeirrar skoðunar að landsáætlun sé leiðin til að ná utan um þetta, að sveitarfélögin haldi utan um þetta hér eftir sem hingað til og við finnum leiðir til að efla með þeim metnað og skilning á mikilvægi þess að stórauka flokkun. Mikilvægast af öllu er auðvitað að Reykjavíkurborg og höfuðborgarsvæðið fari á undan með góðu fordæmi eða að minnsta kosti taki sig saman í andlitinu og fari að sinna þessu svo einhver sómi sé að. (Forseti hringir.) En landsáætlun með tímamarkmiðum er leiðin tel ég vera.