140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað ítarlega og víða um tengsl stjórnmála og viðskiptalífs fyrr á árum og afleiðingar þess fyrir stjórnsýsluna í landinu. Í skýrslunni eru nefnd fjölmörg dæmi um hvernig stjórnmálamenn þvældu sínum eigin pólitísku hagsmunum saman við viðskiptalífið með afleiðingum sem okkur er auðvitað öllum kunnar.

Rannsóknarnefndin komst líka að þeirri niðurstöðu að draga megi þá lærdóma af því sem hér gerðist að betri skil eigi að vera á milli stjórnmálamanna og viðskiptalífs og á það jafnt við um einstaka stjórnmálamenn sem stjórnmálaflokka. Sama á við um aðra þætti samfélagsins eins og fram kemur í rannsóknarskýrslunni.

Í gær var sagt frá því í fréttum Ríkisútvarpsins að helmingur hæstaréttardómara hefði þurft að segja sig frá máli, hafi lýst sig vanhæfa til að dæma í máli einstaklings tengdum hruninu vegna kunningsskapar. Samkvæmt því sem fram kom í fréttinni hefur þó enginn hæstaréttardómari enn sagt sig frá máli vegna tengsla við verjanda máls en er þó ekki ólíklegt að ætla að svo muni verða ef allt er með felldu.

Rétt er að hafa í huga að hér er um að ræða eitt af fyrstu málunum tengdum hruninu sem fer fyrir Hæstarétt og líklega í hópi þeirra veigaminnstu hvað þau mál varðar. Það er auðvitað grafalvarlegt mál, virðulegi forseti, ef Hæstiréttur að hálfu telur sig ekki geta sinnt máli af þessu tagi, vegna tengsla sinna við sakborning í þessu tilfelli, sem oftar en ekki er vegna vinatengsla, kunningjatengsla og pólitískra tengsla og má sömuleiðis rekja til skipan Hæstaréttar ekki síður en annarra mála.

Það er áhyggjuefni, virðulegi forseti, ef dómstólar landsins að ég tali ekki um sjálfan Hæstarétt telja sig illa færa um að sinna málum af þessu tagi því að þess má vænta að á næstu missirum, mánuðum og árum komi fleiri mál þessu tengd fyrir Hæstarétt til úrskurðar. Ég held að Alþingi þurfi að huga að stöðu dómstóla með þetta í huga og hvernig þingið ætlar að bregðast við ef ástæða er til þess.