140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Jafnaðarstefnan er bjartsýn stjórnmálaskoðun. Við jafnaðarmenn trúum því að með samstöðu og skipulagi séu samfélögum allir vegir færir. Í tilefni af þeim ánægjulegu fréttum frá Hagstofunni um að fólksfjölgun hafi orðið hér á árinu 2011, um 1.123 manns eða 0,4%, og einnig þeim ánægjulegu fréttum að kjarnafjölskyldum hafi fjölgað um 250, tel ég ástæðu til að koma hér upp og ræða hvernig markviss vinna núverandi ríkisstjórnar er að skila okkur árangri, færa fólki trú á framtíðina. Væntingavísitalan hefur ekki verið jafnhá frá hruni og hagvöxtur er hér meiri en í flestum nágrannaríkjum okkar. (Gripið fram í.) Það er gott að þingmenn gleðjast og eru kátir því að þetta er sannarlega ánægjulegt.

Íslensk heimili hafa tekið á sig miklar byrðar sem eru afleiðingar afleitrar stjórnmálastefnu síðustu tveggja áratuga sem leiddi til hruns íslenska bankakerfisins, gjaldmiðilsins, gjaldþrots fyrirtækja og hafði alvarlegar afleiðingar á mjög skuldsett heimili. Þessi heimili eru smám saman að öðlast trú á framtíðina en viðvarandi sjálfbærar lausnir á vanda íslensks samfélags verða ekki fengnar með lýðskrumi og loftkastalaloforðum, heldur markvissri vinnu í anda almannahagsmuna og samstöðu. Fréttir frá Hagstofu gefa okkur vísbendingu um að við séum svo sannarlega á réttri leið. [Frammíköll í þingsal.]