140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Skelfilegur atburður fyrir nokkru minnti okkur á mikilvægi öryggis sjómanna. Ég vil þess vegna hvetja hv. þingmenn og sérstaklega hv. þingmenn sem með þau mál fara í nefndum þingsins að kynna sér svar innanríkisráðherra við fyrirspurn minni um meðalaldur fiskiskipa. Meðalaldur skipa frá 15–45 metra er 35 ár og hann hefur hækkað jafnt og þétt. Þetta eru um 200 skip. Ég vil því í mestu vinsemd hvetja hv. þingmenn til að skoða þetta þegar þeir ræða sjávarútvegsmál og breytingar á því umhverfi.

Í öðru lagi vil ég ræða það að nú hefur komið fram að hæstv. ríkisstjórn er að neyða lífeyrissjóðina til að koma heim með erlenda fjármuni til að losa þá aðila sem hér sitja inni með íslenskar krónur. Þetta mun leiða tvennt af sér, virðulegi forseti, og er umhugsunarvert sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem er um lífeyrissjóðina, þetta mun koma niður á ávöxtun sjóðanna og þetta mun ýta undir eignabólu á Íslandi.

Ég fer fram á það að hv. efnahags- og viðskiptanefnd ræði þetta mál sérstaklega því að ég held að ekki þurfi að fara yfir það hversu mikilvægt er að fara yfir lífeyrissjóðina. Ég hélt einhvern veginn að við mundum læra annað af þeirri umræðu sem er en þær nauðungaraðgerðir sem eru núna viðhafðar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Í þriðja lagi vil ég vekja athygli á því að annar verðmætasti fiskurinn okkar núna er makríll, hann er að skila okkur 24 milljörðum og ber uppi þann hagvöxt sem menn hreykja sér hér af. Nú er verið að semja um þetta og hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra heldur utan um það mál. (Forseti hringir.) Ég ætla nú ekkert að fara yfir þá samninga sem hann hefur leitt fyrir Íslands hönd, þeir eru þeir verstu sem við höfum séð og ég hvet hv. þingmenn til að vera á vaktinni næstu daga.