140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég kom hér upp til að vekja athygli á fyrirspurn en síðasti ræðumaður stal eiginlega af mér glæpnum. Ég hef spurt efnahags- og viðskiptaráðherra reglulega hversu mikið verðtryggð lán heimila hafa hækkað síðan þessi ríkisstjórn tók við og ég hef lagt fram nýja fyrirspurn í hvert sinn sem skattar hafa hækkað. Þetta er sem sagt þriðja svarið sem ég fæ. Mig minnir að það fyrsta hafi verið um 14 milljarðar, síðast var það 18,8 milljarðar og nú er svarið 23 milljarðar. Almenn vörugjöld eru ekki talin með vegna þess að Hagstofan greinir ekki áhrif þeirra með beinum hætti í vísitölunni þannig að sennilega er talan hærri. Ég vek athygli á þessu, ekki vegna þess að ég telji endilega að skattahækkanir hafi verið ónauðsynlegar, auðvitað finna allir landsmenn fyrir hærri sköttum en við lifum á erfiðum tímum og ég held að það hafi þurft að fara í einhverjar skattahækkanir. En við búum við verðtryggingu sem er að sliga íslensk heimili og því verður að linna. Þessi eitraða blanda getur ekki haldið áfram og ég skora á þingmenn, og þingheim allan, að taka höndum saman og gera eitthvað í þessu. Við getum ekki dembt þessu svona yfir á heimilin … (TÞH: Ertu þá að styðja ríkisstjórnina?) Nú er kallað fram í og ég ásökuð um að styðja ríkisstjórnina. Það hef ég aldrei gert. (Gripið fram í.) Það hef ég aldrei sagt, en ég ætlaði ekki að vera hér í samtölum við þingmenn. Það sem ég vil benda á er að við verðum að kljúfa þarna á milli. Það er nóg að heimilin taki á sig skattahækkanir með því að greiða hærri skatta, það á ekki að þurfa að greiða þá aftur og aftur og aftur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)