140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hef satt að segja ekki lesið ályktun utanríkisnefndar Evrópuþingsins um íslensk efni og skal ráða bót á því eins fljótt og auðið er, enda sýnist mér að það mál hljóti að koma til umræðu í utanríkismálanefnd íslenska þingsins. Það er örugglega rétt hjá hv. formanni okkar nefndar að það er óviðeigandi að þingið skipti sér af tilteknum málum á Íslandi. Ég vek hins vegar athygli á því í þessu sambandi að það er kannski ekki mjög óviðeigandi að Evrópuþjóðir eða erlendir þingmenn gagnrýni að Íslendingar skuli banna beinar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum vegna þess að það bann er á svig við samstarf okkar við Evrópuþjóðir og aðrar þjóðir í verslun og viðskiptum og gengur þvert á þá fjárfestingarstefnu sem við boðum sjálf og bjóðum útlendingum til á Íslandi.

Hverjar skyldu vera ástæðurnar fyrir því að við bönnum beinar fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum? Er eitthvert vit í því? Eina vitið sem ég sé í því er að halda þó utanumhaldi útgerðarmanna á þjóðarauðlindum Íslendinga innan lands. Það er eina vitið sem ég sé í því.

Ég sé ekki betur en að bann við beinum erlendum fjárfestingum — því að óbeinar fjárfestingar eru ekki bannaðar eins og við vitum öll — gangi gegn hagsmunum í sjávarútvegi og gegn almennum viðskiptahagsmunum á Íslandi og sé í fullkomnu ósamræmi við þær fjárfestingar sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa gert í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég sé því ekkert óviðeigandi við það að það sé gagnrýnt í nefndarálitum, ræðum (Forseti hringir.) og umsögnum erlendra manna.