140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar áðan; þau tengsl og það tengslanet sem er á milli ráðamanna í landinu, í fyrirtækjum, í stjórnmálaflokkum, í Stjórnarráðinu og jafnvel í dómstólum er stórhættulegt. Það hefur ríkt hér um langa hríð og það þarf að uppræta. Þetta er grafalvarlegt. Við getum ekki skotið okkur á bak við fámennið í þessum efnum, því er ekki um að kenna heldur hinu að þetta tengslanet hefur verið riðið hér í áraraðir. Og ég tel að eitt af meginviðfangsefnum þeirra stjórnvalda sem nú eru við völd sé að uppræta þessi tengsl í þjóðfélaginu. (Gripið fram í.) Það tekur tíma eins og svo margt annað sem ríkisstjórnin glímir við en þetta er mjög brýnt. (Gripið fram í.)

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Mörður Árnason sagði um erlenda fjárfestingu. Ég beini því til þingmanna að lesa mjög merkilega ritgerð eftir Ásgeir Jónsson sem fylgir þingskjalinu um beina erlenda fjárfestingu sem liggur hér frammi í skúffu. Þetta er frábær ritgerð, hún skýrir í fyrsta lagi hvernig erlend fjárfesting er nauðsynlegt súrefni inn í íslenskt efnahagslíf og í öðru lagi skýrir hún muninn á erlendu fjármagni, erlendri fjárfestingu og erlendu lánsfé en það var einmitt erlent lánsfé sem reyndist okkur illa og við kunnum ekki með að fara á árunum fyrir hrun. Í þriðja lagi, fyrir þingmenn Íslendinga, er hún á gífurlega góðu máli og við höfum öll gott af því að lesa hana.