140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem boðað er í þessari skýrslu er hækkun orkuverðs á Íslandi, ekki bara til stóriðjunnar, ekki bara til atvinnulífsins heldur líka til alls almennings. Vikið er að því að við höfum verið svo lánsöm að hafa búið við lágt orkuverð meðal annars vegna þess hagræðis sem orðið hefur með þeirri orkuuppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum.

Hér er verið að boða að horfið skuli frá þessari leið og í raun sagt á bls. 39 að stefnt skuli að því að verð útseldrar raforku færist nær því sem þekkist á meginlandsmörkuðum Evrópu. Fyrr í skýrslunni er vikið að samanburði og af þeim samanburði mætti ætla að það þyrfti þá að tvöfalda orkuverðið ef við ætluðum að færast nær evrópska orkuverðinu.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hæstv. ráðherra að boða það með þessari skýrslu að stefna íslenskra stjórnvalda sé að hækka raforkuverðið um ef til vill 100% til að koma, eftir því sem þarna segir, nær því sem þekkist á meginlandsmörkuðum Evrópu?