140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er í raun kynning á heildstæðri orkustefnu fyrir Ísland sem lögð er fram til umræðu og sagt að með þeirri umræðu og starfinu fram undan verði mörkuð orkustefna. Þarna er því ekki verið að boða 100% hækkun á orkuverði eða annað hlutfall. Hins vegar finnst mér það til dæmis vera mjög skynsamlegt sem fram kemur efst á bls. 40 í skýrslunni þar sem sagt er að sé orkuverð undir markaðsverði renni samsvarandi hluti auðlindarentunnar til orkukaupandans. Skýrsluhöfundar leggja áherslu á að auðlindarentan renni til þjóðarinnar en ekki óskipt til orkukaupandans.