140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í skýrslunni er talað um að nýtingarsamningar verði gerðir til tiltekins hóflegs tíma, til dæmis til 25–30 ára í senn, en það fari þó eftir eðli hvers virkjunarkosts að teknu tilliti til upphafs fjárfestingar og afskriftatíma. Sagt er að meta þurfi hvern kost fyrir sig. En áherslan í þessu sem og öðru í þessari skýrslu er á hag þjóðarinnar þannig að viðfangsefnið er að finna hámarksleyfilegan nýtingartíma þar sem jafnvægi er náð á milli tveggja grundvallarsjónarmiða. Það kemur allt saman fram í skýrslunni og ekki síst í séráliti sem er á bls. 83.

Ég sé að tíminn líður og ég hef ekki tíma til að fara yfir þau sjónarmið sem þarna eru. Þegar hugað er að nýtingartímanum þarf hann fyrst og fremst að vera nægilega langur til að verkefnið borgi sig og skili rentu en samt (Forseti hringir.) nægilega stuttur til að hægt sé að endurskoða samningana á einhverju árabili.