140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra var tíðrætt um að þjóðin ætti að njóta arðs af auðlindunum og getur sá sem hér stendur tekið undir það. Síðan virðist mér af málflutningi hæstv. ráðherra og reyndar Samfylkingarinnar og af því sem kemur fram í þessu plaggi, sem er auðvitað pólitískt, að hugmyndafræðin snúist aðallega um að þetta gjald renni í auðlindasjóð og það sé leiðin til að tryggja þjóðinni arð af virkjunum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé réttur skilningur á málflutningi ráðherrans að meginstefnan í að skila arðinum til þjóðarinnar sé í gegnum auðlindarentu í auðlindasjóð og aðrar leiðir séu verri eða illfærari eins og sú sem hefur verið farin um árabil þar sem fyrirtækin hafa hagnast og getað byggt upp (Forseti hringir.) og skapað atvinnu í landinu.