140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar. Á bls. 19 er talað um verndun náttúru og umhverfis og kemur þar fram í textanum að hafa þurfi hagsmuni komandi kynslóða í huga við stefnumótun og framkvæmd, og skila náttúru og umhverfi eins óspilltu og kostur er til þeirra.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af því að ég hef ekki enn rekist á það í þessu plaggi, það kann að vera að það sé hérna, ég hef þann fyrirvara á því: Getur ekki verið að hagsmunir komandi kynslóða séu að nýta náttúruna, að nýta orku, vatnsafl, jarðhita eða hvað það er? Getur ekki verið að jafnmiklir hagsmunir fyrir komandi kynslóðir séu einmitt fólgnir í því að þegar það ágæta fólk sem nú er í skólum landsins kemur úr skólunum þá sé búið að undirbúa jarðveginn þannig að það séu til störf fyrir þetta fólk? Þurfum við ekki að nýta þá orku sem til er?

Næsta spurning er því þessi: Á þá ekki það sama við um (Forseti hringir.) að nýta það sem landið hefur fram að færa og að vernda það?