140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að reyna að vekja athygli á er að ég sé ekki þennan skilning í plagginu. Það kann að vera að það hafi farið fram hjá mér. Mér sýnist skilningurinn vera aðallega sá að hagsmunir komandi kynslóða felist í því að vernda náttúruna, ekki að nýta hana. Ef það vantar inn í plaggið, nú segi ég ef því að (Gripið fram í.) ég ætla ekki að fullyrða það, þá hef ég áhyggjur af því að plaggið sé litað af þeim sökum.

Mig langar líka að benda á eitt og hæstv. ráðherra ræður hvort hún svarar því eða ekki. Á bls. 39 er talað um leiðir. Þar er talað um, með leyfi forseta:

„Að ekki verði gengið á framlegð og arðsemi orkuvinnslu og -sölu vegna byggða- eða atvinnusjónarmiða í héraði, heldur verði markmiðum á þeim sviðum náð með öðrum og almennari hætti.“

Er þá verið að segja að sá munur sem er til dæmis á flutningi vestur á firði og annað eigi að vera áfram nema því verði náð með einhverjum öðrum hætti? Hér er sagt að tekjur nærsamfélagsins í auðlindarentunni renni hugsanlega til baka. Er það ekki einmitt það sem styrinn stóð um og hefur staðið um varðandi sjávarútveginn, varðandi auðlindagjaldið, að hluti af rentunni megi ekki renna til baka til (Forseti hringir.) byggðanna? Fær þetta þá staðist? Er verið að boða aðra stefnu hjá ríkisstjórninni í þessu plaggi en er (Forseti hringir.) uppi varðandi sjávarútveginn?