140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir stórkostlegar innlendar orkuauðlindir og einhverja mestu orkuframleiðslu í heimi, sé miðað við orkuframleiðslu á hvern íbúa, er orkuöryggi okkar alls ekki fullnægjandi. Það má með sanni segja að allt atvinnulíf okkar sé meira og minna háð innfluttum orkugjöfum, eldsneyti. Til að auka á orkuöryggi okkar til framtíðar er nauðsynlegt að horfa til aukinnar framleiðslu á innlendu eldsneyti til notkunar í samgöngum og á fiskiskipaflota okkar. Fyrir stuttu fjölluðum við í þinginu um mikla möguleika á því sviði. Ég ætla því ekki að fara frekar út í þá sálma hér en ítreka mikilvægi þess að stuðlað verði áfram að því með öllum ráðum að auka framleiðslu á til dæmis metani. Hér er um mikla hagsmuni að ræða í efnahagslegu, umhverfislegu og orkuöryggislegu tilliti.

Við eigum öll að geta verið sammála um það leiðarljós stýrihópsins fyrir heildstæða orkustefnu sem segir að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti samfélaginu og almenningi til hagsbóta. Stýrihópurinn setti einnig fram meginmarkmið heildstæðrar orkustefnu sem eru að orkuþörf almennings og almenns atvinnulífs verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma. Með nýtingu orkuauðlinda verði borin virðing fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum landsins, þjóðin njóti arðs af sameiginlegum orkuauðlindum, þjóðhagsleg framlegð orkubúskaparins verði hámörkuð, orkuframboð henti fjölbreyttu atvinnulífi og að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Á Íslandi eru um 90% húsnæðis hituð með hitaveitu frá jarðvarmalindum en um 10% með rafmagni. Í nýlegri skýrslu Orkustofnunar kemur fram að sparnaður þjóðarbúsins á notkun jarðvarma í stað gasolíu til húshitunar nam um 67 milljörðum árið 2009. Sparnaður okkar er sennilega enn meiri í dag ef litið er til verðþróunar á jarðefnaeldsneyti og eru þá ótalin þau jákvæðu umhverfisáhrif sem fást af nýtingu jarðvarma til húshitunar og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi. Raforkunotkun okkar skiptist því í grófum dráttum þannig að um 80% notkunarinnar eru hjá stórnotendum en 20% hjá almennum notendum. Aðeins 5% notkunarinnar eru á heimilum landsmanna.

Með því átaki sem gert hefur verið í hitaveituvæðingu í virkjunar- og raforkudreifingarmálum okkar á undanförnum áratugum hefur verið lagður grunnur að því velferðarsamfélagi sem við eigum alla möguleika á að byggja. Íslensk heimili og fyrirtæki búa við eitthvert hagstæðasta orkuverð sem þekkist í heiminum og þar liggur kannski sá grundvallararður sem þjóðfélagið hefur af auðlind sinni.

Við byggingu Kárahnjúkavirkjunar héldu andstæðingar hennar meðal annars fram þeim fullyrðingum að heimilin mundu niðurgreiða orkuverð til stóriðju. Slíkur málflutningur stenst enga skoðun, eins og staðreyndir sýna okkur svo óyggjandi. Það er einmitt orkufrekur iðnaður, stóriðja, sem leggur grunninn að því hagkvæma orkuverði sem heimili og almenn fyrirtæki búa við. Orkulindirnar eru einhver mesti arður þjóðarinnar og það er mikilvægt að við stöndum vörð um orkuverð til almennings í þessu landi, bæði til fyrirtækja og heimila.

Miðað við þá virkjunarkosti sem féllu í orkunýtingarflokk og biðflokk í mati 2. áfanga rammaáætlunar má gera ráð fyrir að nýtanleg raforkugeta í vatnsafli og jarðhita liggi nálægt 35 teravattstundum miðað við þær forsendur sem þekktar eru í dag, eftir því hvaða virkjunarkostir úr biðflokki enda í orkunýtingarflokki. Í dag nemur orkuframleiðsla okkar um 17 teravattstundum. Mikilvægt er að við nýtingu á jarðvarma og vatnsföllum til raforkuframleiðslu verði haft að leiðarljósi að lágmarka áhrif á náttúru og umhverfi og að vinnslugeta verði tryggð til fyrirsjáanlegrar framtíðar. Þó að mörgum finnist eflaust að gengið hafi verið fullhratt um gleðinnar dyr þegar kemur að virkjunarmálum hefur áhersla á mat á umhverfisáhrifum og virkjanaframkvæmda verið vaxandi og í öllum samningum hefur verið horft til langs nýtingartíma virkjana.

Í mars 1999 kynnti þáverandi ríkisstjórn framkvæmdaáætlun undir kjörorðinu Maður, nýting, náttúra. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þar sagði meðal annars, með leyfi forseta:

„Markmið rammaáætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti sé lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfar þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“

Þarna var lagt af stað í þá vegferð að feta þröngan stíg milli jafnvægis milli nýtingar og verndunar. Í rammaáætlun eru virkjunarkostir flokkaðir í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Það veit ekki á gott hvernig þessi vinna hefur þróast hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum. Öfgasjónarmið eiga ekki að viðgangast þegar fjallað er um svo mikilvæga auðlind sem orkuauðlindin er þjóð okkar. (Gripið fram í.) Því miður virðist sem ágreiningur sé um málið hjá ríkisstjórnarflokkunum og eftir að undirbúningsnefndin hafði skilað af sér fór tillagan í pólitískt ferli ríkisstjórnarinnar.

Eitt skýrasta dæmið um mistúlkun í þessu sambandi er málflutningur varðandi Norðlingaölduveitu. Því er gjarnan haldið fram að baráttan standi um verndun Þjórsárvera þegar öllum sem til málsins þekkja má vera ljóst að Norðlingaölduveita hefur ekkert með Þjórsárver að gera. Um er að ræða einhverja hagkvæmustu framkvæmd til orkuöflunar sem völ er á og full ástæða til að taka undir með forstjóra Landsvirkjunar þegar hann segir Norðlingaölduveitu vera hagkvæmasta virkjunarkost okkar í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. Ef við getum ekki komið umræðunni á hærra plan en raun ber vitni í þessu sambandi næst aldrei sú sátt um verndun og nýtingu sem stefnt er að.

Okkar elstu virkjanir eru skýrt dæmi um hversu arðbær og örugg fjárfesting í orkumannvirkjum er. Afskriftatími er langur og í dag má líkja þessum mannvirkjum við peningaprentvélar fyrir íslenskt samfélag. Það er grundvallaratriði að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum og einhver mesti arður af raforkumannvirkjum landsins er hagstætt orkuverð til almenningsnota. Taka verður tillit til þessara staðreynda þegar nýtingarsamningar verða gerðir um virkjunarkost í framtíðinni.

Um tillögur stýrihópsins um nýtingarsamninga til 25–30 ára hef ég miklar efasemdir og tel það reyndar alveg útilokað að fara niður í svo stuttan tíma. En skoða verður þetta mál gaumgæfilega, það getur farið eftir mismunandi virkjunarkostum hversu langir nýtingarsamningarnir eiga að vera. Það er óhætt að taka undir með Gunnari Tryggvasyni í séráliti hans í skýrslunni varðandi þetta mál en þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Of skammur tími, þ.e. tími sem er undir áætluðum endurgreiðslutíma virkjana á viðkomandi markaði, eykur til muna áhættuna við orkunýtinguna. Líklegasta afleiðingin er að verulega dragi úr þeirri auðlindarentu sem skapast í greininni og renna á til eiganda hennar, þjóðarinnar. Slíkt vinnur gegn því meginmarkmiði orkustefnu að hámarka arð þjóðarinnar af auðlindum sínum auk þess að skapa þrýsting á bæði orkuverð og nýtingarmunstrið sjálft.“

Við verðum að fara mjög varlega vegna þess að þarna eru gríðarlega miklir hagsmunir undir sem horfa verður til og þær tillögur sem koma fram í skýrslunni eru að mínu mati óásættanlegar í þessu tilliti.

Rafmagn verður ekki framleitt nema hægt sé að flytja það til kaupenda og til þess þarf háspennulínur. Öll getum við verið sammála niðurstöðu skýrsluhöfunda um að leita verði allra leiða til að hafa sjónmengun í lágmarki og að eins mikið tillit verði tekið til umhverfislegra þátta eins og línulagna og kostur er en sú umræða og krafa sem heyrst hefur á undanförnum missirum um að leggja háspennulínur í jörð er einfaldlega ekki tímabær. Kostnaðurinn við þá aðferð er enn allt of mikill. En miðað við þá tækniþróun sem á sér stöðugt stað er ekki ólíklegt að mögulegt verði að gera þetta í meira mæli en í dag innan einhverra áratuga.

Hverjum hefði til dæmis dottið í hug á sínum tíma þegar loftsímalínur voru lagðar um landið þvert og endilangt að innan einhverra áratuga yrðu allar þessar línur komnar í jörð? Líklegt verður að teljast að þróunin verði slík varðandi raflínur.

Virðulegi forseti. Verðmæti orkuauðlinda okkar eru gríðarleg og því er mjög mikilvægt að vandað sé til verka. Hagstætt orkuverð og græn orkuframleiðsla eiga í öllu tilliti að gefa okkur mikið samkeppnisforskot og möguleika á að byggja upp mjög fjölbreytta atvinnustarfsemi. Það liggur í augum uppi að uppbygging fjölbreytts orkufreks iðnaðar muni í framtíðinni leggja grunn að öflugu samfélagi, samfélagi sem á að geta veitt þegnum sínum einhver bestu mögulegu lífskjör sem völ er á.

Eins og áður sagði kemur fram í skýrslu stýrihópsins að raunhæft sé að gera ráð fyrir allt að 35 teravattstunda raforkuframleiðslu. Það er auðvitað afstætt en þar er miðað við þá virkjunarkosti sem nú eru flokkaðir í nýtingarflokk og að hluta til í biðflokk í þeim drögum að rammaáætlun sem liggja fyrir. Virkjanlegt afl er nánast tvöfalt meira í landinu og um það verður örugglega lengi deilt hversu langt á að ganga. Í skýrslunni kemur fram að miðað við tiltekna þróun raforkuverðs, að frádregnum kostnaði, meðal annars vegna einangrunar Íslands frá meginlandinu, segir að framlegð raforkuvinnslu geti orðið tæpir 200 milljarðar kr. árið 2030 — 200 milljarðar kr., virðulegi forseti. Setjum það í samhengi við það vandamál sem við stöndum frammi fyrir í dag. Svo geta menn deilt um hvenær hefja á framkvæmdir á þessu sviði. Hvað er betra fyrir framtíðarkynslóðir þessa lands en að hér sé til staðar öflug atvinnustarfsemi sem byggir á þessum náttúruauðlindum landsins og að framtíðarkynslóðir geti gengið að einhverju því besta samfélagi sem völ er á til að búa í.

Niðurstöður nefndarinnar styðja í raun og veru við niðurstöður í framtíðarskýrslu Landsvirkjunar sem kynnt var á síðasta ári en þar kemur einmitt fram að miðað við minna virkjanlegt magn en hér er rætt um og innan styttri tíma, eða ársins 2025, megi reikna með allt að 100 milljarða framlagi í skatt- og arðgreiðslur frá Landsvirkjun ef sú framkvæmdaáætlun gengur eftir. En sú framkvæmdaáætlun gengur ekki eftir því að hér eru ekki teknar ákvarðanir vegna þeirrar óeiningar sem er meðal ríkisstjórnarflokkanna um hvaða skref skuli stíga. En skýrslurnar eru samhljóma um þetta. Ég ætla ekki að deila um það orkuverð sem þarna er lagt til grundvallar. Ég tel að það sé umdeilanlegt, en alla vega liggur í augum uppi að hér er um atvinnugrein að ræða sem mun verða meginstoð íslensks samfélags í framtíðinni.

Það verður líka að hafa það í huga að með aukinni tækniþróun er öruggt að þær virkjanir sem fyrir eru munu skila okkur miklu meira afli en lagt var upp með með byggingu þeirra. Það sýna til dæmis þær breytingar sem gerðar hafa verið á eldri virkjunum okkar. Gerðar voru endurbætur á Búrfellsvirkjun með þeim árangri að heildarafli var aukinn úr 220 megavöttum í 270, í Sigölduvirkjun jókst afl úr 150 megavöttum í 165 og áform eru um endurbætur á fleiri virkjunum. Það er því galin umræða að þjóðin sé komin að endamörkum þess að nýta þær auðlindir sem liggja við fætur okkar og það er nauðsyn að hefjast handa strax. Sú biðstaða sem skapast hefur í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur reynst samfélagi okkar dýrkeypt. Það má með sanni segja að fram hjá okkur hafi farið þrjú ár hinna glötuðu tækifæra til eflingar atvinnu- og efnahagslífi. Um það eru þeir sammála sem unnið hafa að því að fá nauðsynlega beina erlenda fjárfestingu til landsins. (Gripið fram í.)

Allar yfirlýsingar forustumanna ríkisstjórnarinnar um að kreppunni sé lokið og að gróska sé að myndast í íslensku atvinnulífi eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum, ekki frekar en ummæli og loforð hæstv. forsætisráðherra um fjölgun starfa og eflingu atvinnulífs. Það er kapítuli út af fyrir sig og efni í aðra umræðu hvernig forsætisráðherra talar til aðila vinnumarkaðarins og má segja að hún toppi framkomu sína með því að hafna þátttöku á viðskiptaþingi í þessari viku.

Ef skoðaðar eru nýlegar hagvaxtarspár ASÍ og Seðlabanka liggur í augum uppi að hlutirnir ganga ekki upp. Hagvöxtur á bilinu 1,5–2,5% á næstu árum dugar ekki. Með öðrum orðum, góður gangur í ferðaþjónustu og uppbygging einstakra meðalstórra fyrirtækja sem mögulega er í pípunum skapar ekki þá verðmætaaukningu og fjölgun starfa sem nauðsynlegt er. Það verður enginn raunverulegur bati í efnahagsumhverfi okkar fyrr en grunnatvinnuvegir okkar fara í nauðsynlegar fjárfestingar. Fullyrðingar um annað eru ekkert annað en óskhyggja og við förum ekki langt á henni.

Eins og ég kom inn á fyrr í ræðu minni eru um 80% orkunotkunar hjá stórnotendum, í orkufrekum iðnaði. Aðeins 5% af framleiðslunni fer til heimilisnotkunar. Við þær aðstæður sem við bjuggum á uppbyggingartíma raforkuframleiðslu okkar var nauðsynlegt að horfa til stórnotenda, öflugra fyrirtækja sem staðið hafa undir þessari öflugu uppbyggingu. Segja má að búið sé að leggja grunninn og að aðstæður séu aðrar í dag. Fjölbreyttari virkjunarkostir, til dæmis í jarðvarmavirkjunum, gera okkur kleift að mæta þörfum fyrirtækja sem ekki geta beðið eins lengi eftir afhendingu orku og hefðbundin stóriðja. Með lagningu sæstrengs til meginlandsins getum við einnig dreift verulega áhættunni við byggingu virkjana þar sem við erum þá ekki eins háð fyrir fram sölu á orkunni. Það styrkir einnig samningsstöðu orkufyrirtækjanna gagnvart áhugasömum kaupendum þegar sá möguleiki er fyrir hendi að selja orkuna til annarra landa.

Meginmarkmið okkar með raforkuframleiðslu á eftir sem áður að vera til eflingar íslensku atvinnulífi og stuðla að auknum útflutningsverðmætum. Höfum þá í huga það sem segir í kaflanum um leiðarljós og meginmarkmið í skýrslunni. Umræðan um auðlindasjóðinn er nokkuð áhugaverð og þau rök sem komu fram frá fundarmönnum um að hér þyrfti ekki að stofna auðlindasjóð vegna þess að við værum með endurnýjanlegar auðlindir, auðlindir sem stöðugt gæfu af sér. Við getum tekið afurðina af þessum auðlindum beint til þjóðarinnar um leið og arðurinn myndast. Við þurfum ekki að stofna til þess sérstakan sjóð, safna í hann og ávaxta síðan fyrir komandi kynslóðir. Þær geta gengið að auðlindum með nýtingu eins og gert er ráð fyrir með virkjunarkostum okkar.

Virðulegi forseti. Það getur ekki orðið sátt um þetta plagg eins og það liggur fyrir í stórum dráttum en umræðan er vonandi af hinu góða. Það er mjög mikilvægt að við sameinumst um að umræðan verði málefnaleg og að við reynum að ná einhverri skynsamlegri sátt á milli nýtingarsjónarmiða og verndunarsjónarmiða.