140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[14:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man eftir því í umræðu á þingi fyrr í vetur þegar hv. þm. Mörður Árnason hló dátt þegar ég fór yfir forsendur í framtíðarskýrslu Landsvirkjunar en þar fór ég meðal annars yfir þá virkjunarröð sem Landsvirkjun leggur til. Þarna var unnin mjög ítarleg skýrsla þar sem Landsvirkjun leggur til mjög skynsamlega nálgun að mínu mati á þessi mál. Þar er lagt til að farið sé í hóflega uppbyggingu raforkumannvirkja, virkjana, til ársins 2025 og að virkjanlegt magn verði á þeim tíma aukið úr um það bil 17 teravattstundum í um 31–32 teravattstundir. Arðsemi slíkrar framkvæmdaáætlunar samkvæmt niðurstöðu Landsvirkjunar er að frá árinu 2025 gætu heildararðgreiðslur og skattgreiðslur til samfélagsins numið um 100 milljörðum kr. og ef farið væri í lagningu sæstrengs, sem ég tel mjög mikilvægt að fara í sem allra fyrst og það er orðið tæknilega raunhæft að mati þeirra sem best til þekkja, yrði arðurinn um 115 milljarðar. Þar held ég að sé stigið eðlilega til jarðar og í skýrslunni er farið ágætlega yfir þau áhrif sem slík framkvæmdalína mundi hafa á efnahagslífið. Auðvitað yrði að samræma aðgerðir að öðru leyti af hálfu hins opinbera varðandi aðrar fjárfestingar á meðan ákveðnum toppum yrði náð í þeirri framkvæmdalínu þannig að við drægjum sem mest úr þeirri ógn sem skapast gæti vegna of mikillar þenslu í kringum slíkar framkvæmdir. Það á vel að vera hægt, sérstaklega með þá reynslu sem við höfum í farteskinu.