140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:02]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Við ræðum hér um orkustefnu fyrir Ísland sem er eins og yfirskriftin bendir til gríðarlega viðamikið umfjöllunarefni. Hér er ráðist í að ná utan um virkilega stóran hluta í forsendum íslenskrar samfélagsuppbyggingar til framtíðar og ber að þakka það. Hér er farin nokkuð óvenjuleg leið hvað það varðar að ráðherra iðnaðarmála ræðir stefnuna við þingið og er það hluti af stefnumótuninni sem slíkri og er hugsunin sú að orkustefnan liggi síðan til grundvallar ákvarðanatöku í þessum stóra málaflokki.

Eins og komið hefur fram í umræðunni eru gríðarlega stórir þættir orkustefnunnar fyrir Ísland sem eru okkur sameiginlegir sem marka sameiginlega sýn þjóðarinnar til umgengni okkar við orkuna, orkubúskapar okkar. Hins vegar koma líka fram eins og umræðuefnið gefur tilefni til allnokkrir ágreinings- og núningsfletir sem ég tel gott og mikilvægt að teknir séu til umræðu í þinginu í ljósi þess hversu mikilvægur málaflokkur hér er á ferð.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna í þessu samhengi öllu saman. Að hluta til má segja að sum þeirra hafi verið sammerkt þeim sem gerðu athugasemdir við drögin að stefnunni þegar þau voru lögð fram til kynningar og umræðu á vef. Eitthvað af þeim kemur frá færri aðilum en mér finnst ástæða til þess að á þessum tímapunkti í stefnumótuninni drögum við þessa þætti fram.

Í stefnunni kemur til að mynda fram, sem er mikilvægt fyrir okkur að halda til haga af því að við höfðum tilhneigingu til að horfa á okkur sem einhvers konar fyrirmyndarþjóð í orkuefnum og menn tala um græna orku og sjálfbæra orku og allt þarf það að vera í gæsalöppum, eðli málsins samkvæmt, að Ísland er í raun og veru merkilega háð jarðefnaeldsneyti þrátt fyrir aðganginn að þessari miklu orku fallvatna og jarðvarma. Í samgöngum er gríðarlega mikil olíu- og bensínnotkun og sama gildir um fiskiskipaflotann. Stóriðjan fær orkuna allt of ódýrt, hirðir 80% af því sem virkjað hefur verið fyrir allt of lágt verð. Það er stórmál fyrir þjóð sem vill lifa og byggja upp sitt samfélag á grundvelli orkuauðlindanna að þetta sé veruleikinn. Þetta er eitt af stærstu og mikilvægustu viðfangsefnum breyttrar sýnar yfirstjórnar Landsvirkjunar, að hverfa frá útsölustefnunni í áttina að því að fá verðugt gjald fyrir orkuna til þess að almenningur fái notið.

Þetta minnir okkur á að orkustefna fyrir Ísland er ekki nýtt mál. Í raun og veru má segja að stóriðjustefna, óheft orkunýtingarstefna, hafi verið orkustefna fyrir Ísland þótt hún hafi kannski aldrei hlotið sérstaklega faglega umfjöllun eða verið skoðuð heildstætt eða prentuð út nema kannski í litprentuðum bæklingum um, með leyfi forseta, „lowest energy prices“, þ.e. lægsta orkuverð.

Annað til umhugsunar er að við erum ótrúlega nálægt því, sú kynslóð sem nú er uppi, og þá komum við kannski að þessum siðrænu umhugsunarefnum, við, kynslóðin sem er fædd um og eftir miðja síðustu öld, erum ótrúlega nálægt því að hafa fullvirkjað Ísland á ótrúlega stuttum tíma. Um tveir þriðju af áætlaðri raforkugetu í vatnsafli hafa þegar verið virkjaðir og rúmlega fjórðungur í jarðvarma. Þetta er ótrúlega brött kynslóð sem við tilheyrum því að þetta er sama kynslóðin og kollkeyrði íslenskt efnahagslíf og telur sig þess umkomna jafnframt að útdeila öllum orkukostum um ókomna tíð. Þetta er umhugsunarefni fyrst og fremst og mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að yfirskrift stefnu okkar í ýmsum efnum á tyllidögum er sjálfbær þróun. En sjálfbær þróun gerir einmitt kröfu um að við höfum hagsmuni komandi kynslóðar líka að leiðarljósi en ekki bara okkar eigin.

Þessi pappír er um margt gríðarlega merkilegur og mikilvægur. Ég vil nota tækifærið hér til að þakka öllum þeim sem hafa komið að þeirri vinnu. Hér er um að ræða vinnu sem er á snertifleti við mjög margs konar áætlanagerð aðra fyrir Ísland. Ýmsir hafa bent á að í raun eigi orkustefnan sæti innan auðlindastefnu fyrir Ísland, þ.e. að orkustefnan sé einn af þeim byggingarsteinum sem setja saman auðlindastefnuna því að auðlindastefnan þarf að snúast um ábyrga umgengni við allar auðlindir Íslands og sjálfbæra nýtingu þar sem það á við. Í þessu efni má nefna til að mynda líka aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, landsskipulagsstefnu sem er verkefni sem er nú í gangi á grundvelli nýrra skipulagslaga sem fékk hér farsæla og þverpólitíska samþykkt í gegnum þingið. Það er í raun og veru fyrsta heildræna stefnumótunin fyrir Ísland þar sem öllum áætlunum er stefnt saman í eina, hvort sem það er samgönguáætlun eða vatnaáætlun eða hvað það er. Öll þessi stefnumótun á snertifleti við orkustefnuna og víkur jafnframt huganum að því að það er í raun ótrúlegt hvað núverandi ríkisstjórn hefur komið margs konar stefnumótun af stað til viðbótar við það að reisa efnahagslífið úr rústum hægri stefnunnar.

Mig langar að nefna annað atriði, nú er þetta svo sem ekki komið á endapunkt og iðnaðarráðherra tekur nesti úr umræðunni hér til áframhaldandi vinnu, að það má kannski velta fyrir sér annarri orkunýtingu en framleiðslu rafmagns, þ.e. hvernig við nýtum jarðvarmann til að mynda. Við nýtum hann að mjög takmörkuðu leyti, við nýtum hann bara að því er varðar raforkuframleiðsluna. Strangt tekið má efast um að það standi undir nafni sem sjálfbær nýting þegar svo mikill hluti af varmanum fer forgörðum við orkuframleiðsluna. Það eru þættir sem hafa komið upp í stefnumótun Landsvirkjunar að því er varðar endurbætur á virkjunum, á núverandi virkjunum þar sem Landsvirkjun hefur dregið fram ákveðin sóknarfæri í því að bæta nýtingu einstakra virkjana, sérstaklega eftir því sem bráðnun jökla eykst. Landsvirkjun telur jafnvel að hér sé hægt að auka nýtingu um 10–20% án nýrra virkjunarsvæða og það er gríðarlega mikilvægt því að það er erfitt fyrir samfélög að þurfa að takast mikið á. Það væri gott ef við gætum nýtt betur það sem þegar hefur verið virkjað þannig að umræða um endurbætur á virkjunum mundi styrkja orkustefnuna ef henni væri fundinn þar staður.

Sjónarmið um þróun raforkuverðs í Evrópu sem minnir okkur á þetta samhengi sem við erum í, hið alþjóðlega samhengi sem við erum í, er líka mikilvægt að draga fram.

Það má kannski líka segja að við þurfum að staldra við það mat sem hér liggur til grundvallar á virkjanlegri orku, þ.e. hvaða röksemdir liggja til grundvallar því að hér er talað um 30–50 teravattstundir. Á hverju byggir sú tala? Er gott að byggja skýrslu af þessu tagi á tölu sem er byggð á eins veikum grunni? Það er umhugsunarefni.

Lífeldsneytishlutann held ég að þurfi líka að fjalla betur um vegna þess að við sjáum nú þegar, til að mynda að því er varðar aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, að sennilega höfum við nálgast það af fullmikilli bjartsýni sem möguleika í orkunotkun og þær efasemdaraddir koma raunar líka fram í skýrslu frá iðnaðarráðherra um orkuskipti í samgöngum. Það er til ábendingar. En meginatriðin eru þau að það er gríðarlega mikilvægt að hér er verið að marka grunn að heildstæðri orkustefnu. Ísland var allt í nýtingarflokki. Í reynd var sú orkustefna í gangi fyrir Ísland að nýta sem mest, strax. Þeir tónar hafa aðeins komið hér fram hjá einhverjum hv. þingmönnum. Sjálfstæð orkustefna þarf að vera hluti af heildstæðri auðlindastefnu þar sem sjálfbærnihugtakið liggur til grundvallar. Við þurfum að átta okkur á að jarðvarmavirkjanir sem slíkar, við vitum ekki enn þá nægilega mikið um hversu sjálfbær nýting þeirra getur orðið inn í framtíðina. Þarf að hvíla þær eftir einhvern tiltekinn tíma eða hvernig verður því háttað? Í ábendingum kom fram að til dæmis við nýtingu jarðvarma til raforkuframleiðslu í stórum stíl kann að vera gengið á orkuöryggi síðar, þ.e. til húshitunar. Ef við göngum svo mikið til að mynda á Hengilssvæðið að við þurfum síðan að hvíla það gætum við þá lent í vandræðum með húshitunarþörf höfuðborgarsvæðisins? Þetta eru þættir sem þarf líka að hafa í huga.

Geta vatnsaflsvirkjanir flokkast sem sjálfbærar þegar við erum að tala um stórar virkjanir með miðlunarlónum sem fyllast af framburði á tímabili nokkurra kynslóða, tveggja, þriggja kynslóða, og við erum að tala um víðtækar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar kannski fyrir lífríkið líka? Erum við þá að tala um sjálfbæra nýtingu? Ég tala nú ekki um ár sem koma undan jökli sem er á hröðu undanhaldi. Þetta eru þættir sem þarf líka að taka hér inn, þetta snýst um að hluta til að horfast í augu við veruleikann. Þetta er viðfangsefni sem allar þjóðir heims horfast í augu við. Við gengum út frá því að jörðin væri svo að segja endalaus og auðlindirnar ótæmandi og öll stöndum við, jarðarbúar, frammi fyrir því núna að horfast í augu við að það kann að vera að við þurfum að hugsa okkur betur um en við höfum gert. Það er mikilvægt viðfangsefni.

Virðulegur forseti. Í meginatriðum fagna ég þessu plaggi og jafnframt því í hvaða farveg það er hér sett. Mér finnst til fyrirmyndar að iðnaðarráðherra fjalli um þetta sérstaklega í þinginu, að það skuli vera efnt til umræðu um mál af þessum toga. Auðvitað er mikilvægt, eins og hér hefur komið fram, að orkustefnan sé raunverulega stefna sem heldur, stefna stjórnvalda sem heldur til lengri framtíðar og getur síðan verið grundvöllur ákvarðanatöku. Þess vegna styrkir það þá stefnumótun að Alþingi komi að henni með öflugum hætti, en best af öllu væri að orkustefna sem þessi væri um leið hluti af heildstæðri auðlindastefnu fyrir Ísland þar sem fiskveiðistjórnarkerfið á líka sinn sess.