140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segir að hér geti verið mögulega um að ræða verulegt ofmat á virkjunarkostum. Nú vil ég biðja hæstv. ráðherra að tala svolítið skýrar. Hvað erum við að tala um? Í þessu plaggi varðandi nýtingarflokkinn er verið að tala um 30 teravattstundir, af því hafi þegar verið virkjað um 17. Síðan er verið að tala um að í hugmyndinni sem þarna kemur fram og er forsendan fyrir öllum arðsemisútreikningum sem síðar koma fram í plagginu, að helmingurinn af þeim virkjunarkostum sem nú eru í biðflokki verði færður inn í nýtingarflokk og þannig fái menn þá arðsemi sem verið er að reikna út frá.

Nú segir hæstv. ráðherra að hér kunni að vera um að ræða verulegt ofmat. Það er auðvitað heilmikil yfirlýsing. Það er bara yfirlýsing um að hæstv. ráðherra telji að skýrslan sé á sandi byggð, byggt sé á einhverjum hugmyndum um virkjunarkosti sem séu ekki í reyndinni til. Það verður auðvitað að tala skýrt þegar við erum að ræða um svona stórt og alvarlegt mál. (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra verður þess vegna að skýra þetta miklu betur hvað hér er verið að vísa til og hvort til greina komi af hennar hálfu að færa einhverja af þeim virkjunarkostum úr biðflokki í nýtingarflokk sem er forsenda fyrir arðsemisútreikningunum í þessu plaggi.