140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:23]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið en velti fyrir mér — ég hlustaði á hann áðan flytja ræðu sína og honum varð tíðrætt um öfgasjónarmið. Mér finnst það nánast að segja kúnstugt úr munni þess þingmanns sem hefur miklar áhyggjur af því að við séum búin að friða svo mikið af Íslandi að það jaðri bara við að fara þurfi að snúa vörn í sókn vegna þess hversu mikið yfirborð af landinu sé friðlýst nú þegar, að þá veltir maður fyrir sér hvar öfgarnar séu í því.

Eins og ég rakti hér áðan eru þetta allt saman systur, hvort sem það er auðlindastefna, orkustefna eða rammaáætlun, landsáætlun, landsskipulagsáætlun o.s.frv. Þær þurfa allar að haldast í hendur en grundvöllur rammaáætlunar er, eins og þingmaðurinn veit, gríðarlega mikil fagleg vinna. En að því er varðar þá orku sem undir er, sérstaklega í jarðvarmakostunum, (Forseti hringir.) er það náttúrlega að sumu leyti eitthvað sem ekki kemur í ljós fyrr en virkjað hefur verið.