140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir ágæta ræðu. Ég get tekið undir með henni með efasemdir hennar um jarðvarmavirkjanir, hversu lágur nýtingarstuðullinn er þar.

Hins vegar hef ég dálitlar efasemdir um vatnsorkuna. Í skýrslunni stendur og hæstv. ráðherra sagði að við þyrftum að hafa ábyrga umgengni um allar auðlindir landsins og að hafa þurfi hagsmuni komandi kynslóða í huga við stefnumótun og framkvæmd.

Ég tók eftir því þegar ég var sjö, átta ára gamall að vatnsorka sem rennur til sjávar er ónýtt og kemur aldrei aftur. Eru það ekki hagsmunir fyrir komandi kynslóðir að sú orka sé notað eins og hægt er — af því að hún hverfur og kemur aldrei aftur — í þágu komandi kynslóða með því að virkja hana strax, nota hana til að auka menntun og til að auka eignir þjóðarinnar þannig að komandi kynslóðir njóti þeirrar orku sem fer og kemur aldrei aftur? Er þetta ekki meira virði en að hiksta stöðugt á því að virkja?