140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Sú skýrsla stýrihóps sem hér liggur fyrir er full af almennilegheitum og fallegum orðum. Án efa gætu flestir skrifað upp á flest það sem hér stendur, þ.e. ef maður legði sig ekki eftir því að hlusta á það sem þeir sem stóðu að þessum pappír hafa sett í þetta og eins þeir sem tala fyrir þessu plaggi. Þá fer að verða annar bragur á þessu, enda er þessu auðvitað stýrt af hæstv. iðnaðarráðherra og í stýrihópnum er augljóslega, þegar maður rennir yfir hann, fólk úr stjórnarflokkunum. Þar af leiðandi er þetta stefna ríkisstjórnarflokkanna sem hér kemur fram, enda ekkert að því, bara svo að það sé nú sagt og menn átti sig á því.

Þegar við förum að skoða þetta svona almennt séð þá kannski breytist margt í þessu. Í 3. kaflanum er til dæmis fjallað um raforkumarkaðinn og í sögulegu samhengi um uppskiptinguna sem byggð var á raforkulögum frá 2003 og er í samræmi við evrópska raforkutilskipun. Í því sambandi má spyrja — sem ekki er gert í þessari skýrslu — hvort það hafi verið skynsamleg leið og hvort við hefðum átt að fara af þeirri leið. Í ljós hefur komið á liðnum árum að sú einasta samkeppni sem orðið hefur til er vegna offramboðs á raforku í augnablikinu. Þar af leiðandi eru það fyrst og fremst einstök fyrirtæki sem hafa notið þess hluta en heimilin í landinu hafa ekki notið þess á nokkurn hátt. Þar er engin samkeppni og maður getur alveg velt því fyrir sér hvort þetta sé skynsamleg leið.

Það er til dæmis fjallað um það í þessum kafla, í sögulegu samhengi, að það skuli vera starfrækt eitt sjálfstætt flutningsfyrirtæki, Landsnet, sem reki flutningskerfi raforku og annist kerfisstjórnun, það skal ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis og sveitarfélaga. Nú síðast fyrir jólin drógum við slíkt ákvæði til baka. Það skyldi skoðað vegna þess að menn treystu sér ekki til að ganga þá leið að kaupa það af orkufyrirtækjunum sem eiga Landsnet að stóru leyti í dag, en vissulega er Landsvirkjun í eigu ríkisins — ekki treystu öll sveitarfélögin sér til þess. Þetta eru því, eins og ég segi, falleg orð sem menn geta skrifað upp á en kannski eru þau ekki nákvæmlega eins og menn töldu að þau ættu að vera.

Í 6. kaflanum, Orkuþörf mætt með öruggum hætti, er talað um afhendingaröryggi raforku og það markmið að landsmenn búi við fullnægjandi afhendingaröryggi raforku. Þá getur maður spurt: Hvernig kemur það fram í stefnu stjórnvalda, t.d. varðandi suðvesturlínur? Þar hafa menn þurft á að halda fullnægjandi afhendingaröryggi á raforku til Suðurnesja eða frá, ef þeir fengju að virkja. Við gætum þá líka tekið Vestfirði þar sem afhendingaröryggi í raforku er ekki fullnægjandi, af hverju hefur stefnan þá ekki verið sú að virkja innan Vestfjarða sem fyrst til að tryggja meiri orku á því svæði eða þá að fara í uppbyggingu á því? Það virðast vera falleg orð en þegar maður fer að skoða stefnuna virðist hún ekki standast. Það má nefna fleiri svæði, t.d. Suðausturland eða Norðausturland.

Í 7. kaflanum er fjallað um virðingu fyrir umhverfi, náttúru og sérkennum. Þar er hámark þessara fallegu orða sem menn þurfa að spyrja sig hvað standi á bak við.

Þetta er, eins og fram hefur komið, heildstæð orkustefna. Við höfum líka verið með alls konar aðrar stefnumarkanir eins og um grænt hagkerfi, stefnu um beina erlenda fjárfestingu, sem við ræddum í morgun, sem spilar inn í þessa orkustefnu, svo að ekki sé minnst á rammaáætlun. Það er kannski rétt að nefna hana hér, hún hefur komið aðeins til tals í dag. Þar er fjallað um orkunýtingarflokka, biðflokk og verndarflokk. Það hefur komið fram hjá hæstv. umhverfisráðherra, og er sjónarmið margra vinstri grænna, að fækka þurfi kostum í nýtingarflokki og færa yfir í biðflokk eða verndarflokk.

Mjög margir þeir virkjunarkostir sem eru í gangi í dag falla hins vegar í biðflokk. Það þýðir að enginn veit hvað á að gera fyrr en eftir fjögur ár eða sex þegar þeir hafa farið í gegnum nýja rammaáætlun, rammaáætlun 3 eða eitthvað slíkt, en kannski var allan tímann stutt í að menn segðu: Þetta er skynsamlegur nýtingarkostur. Ættum við að vera með biðflokk sem við hugsuðum okkur að nýta, einhvers konar nýtingarbiðflokk? Þá væri einfaldlega hægt að fá rannsóknarleyfi og fjármagn til að skoða virkjunarkostinn áður en ákvörðun er tekin um hvort skynsamlegt sé að setja hann í nýtingarflokk eða færa hann í biðflokk til lengri tíma. Hættan er sú að þessi biðflokkur verði til að drepa niður mál, ég tala nú ekki um ef hin raunverulega stefna stjórnvalda er að fækka virkjunarkostum í nýtingarflokki og færa yfir í biðflokk og verndarflokk.

Í sambandi við vatnsaflsvirkjanirnar er svolítið talað um raforkuvinnslu og aðeins minnst á að hlýnandi veðurfar getur flýtt bráðnun jökla og þar af leiðandi haft áhrif á rennsli jökulvatna. Þá er rétt að minna á það sem menn hafa talað um — og var hérna síðast hjá hæstv. umhverfisráðherra í Brundtlands-niðurstöðunum — að menn eigi ekki að ganga þannig á auðlindir að næstu kynslóðir geti ekki nýtt þær. En ef við nýtum þær ekki núna á næstu 20 eða 50, jafnvel 100 árum, munu kynslóðirnar sem koma þar á eftir ekki njóta nokkurs arðs af þessu vatni sem núna rennur fram hjá. Því spyr maður: Hefði ekki verið skynsamlegt að taka eitthvað á þessu?

Í sambandi við jarðhitavirkjanirnar er meðal annars talað um, og það er svona yfirstefnan, að gæta eigi að mengun. Það er eðlilegt að menn taki þessa umræðu vegna þess að fyrir nokkrum árum virtist stefnan vera sú að menn ætluðu að færa sig frá vatnsaflsvirkjunum yfir til jarðvarmavirkjana. En nú hafa menn uppgötvað að á þeim eru líka gallar og kannski eru vatnsaflsvirkjanirnar hinar bestu virkjanir, ég tala nú ekki um þegar við erum farin að tala um rennslisvirkjanir og taka ýmis önnur neikvæð áhrif þar inn í með lónsstærð og annað í þeim dúr.

Í sambandi við jarðhitavirkjunina er talað um að gæta að mengun skaðlegra lofttegunda, brennisteinssambanda o.fl., en þá verður líka að spyrja: Hvernig kemur þetta fram í stefnu núverandi stjórnvalda? Hæstv. umhverfisráðherra hefur til dæmis sett reglugerð í sambandi við brennisteinsvetni þar sem hámarksgildi þess er aðeins 1/3 af alþjóðlegum viðmiðum í landi þar sem við búum við hverasvæði, þar sem sannarlega er talsvert magn af brennsteinsvetni í loftslaginu. Er þessi reglugerð þá ekki sett til að koma í veg fyrir að önnur jarðvarmavirkjun verði í landinu, alla vega á þeim svæðum sem þær eru á í dag, vegna þess að það muni ekki nást vegna tæknilegra örðugleika að vinna þetta niður? Maður spyr sig hvort þetta séu fyrst og fremst falleg orð en á öllum öðrum sviðum stjórnsýslunnar sé unnið að því að koma í veg fyrir að nokkur orkuvinnsla verði, að orkustefnan sé sú að ekki verði virkjað neitt meir, það sé hin raunverulega orkustefna. Ég vil hins vegar ekki trúa því á stjórnarflokkana, hvorugan þeirra, að svo sé.

Við gætum kannski líka sagt að eitthvað vanti inn í þetta plagg, sem er ágætt á margan hátt. Hér er til að mynda talað um flutningskerfi raforku og orðið „kostnaður“ er nefnt. Hins vegar er ekki eitt einasta markmið, ein einasta leið, sem fjallar um að jafna kostnað eða lækka kostnað. Maður veltir því fyrir sér af hverju það er. Til hvers er þetta sett inn, er þetta til þess eins að fylla upp í pappírinn?

Í sambandi við hitaveiturnar, á bls. 23, er heldur ekki talað um — hér er talað um ávinnslugetu, að varast verði að ganga of langt, og ég get alveg tekið undir það. En hvað með aukna jarðvarmanýtingu á nýjum svæðum? Það eru ákveðin svæði á landinu sem því miður njóta ekki þess lúxuss og maður spyr: Hvar er sú stefna í þessari orkustefnu?

Við gætum líka gengið lengra og velt fyrir okkur að fram kæmi meira sambland við grænt hagkerfi eða stefnu um atvinnusókn, t.d. hvort ekki hefði verið skynsamlegt í þessari orkustefnu, þar sem talað er um að nýta orkuna til minni og smærri kosta ef hægt er, að tala skýrar um garðyrkjuna. Það hefur margoft komið hér inn í þingið og allir eru sammála um að skynsamlegra sé að búa henni eðlilegra umhverfi í kostnaði, bæði er varðar dreifingu og eins varðandi orku, og það hefði verið skynsamlegt að setja það inn í þetta plagg.

Síðan er fjallað um það sem við náðum að koma aðeins inn á í sambandi við það að þjóðin njóti arðs af auðlindum. Þá komum við að þessum stóru spurningum: Er það hin skynsamlega leið að hækka raforkuverð umtalsvert, eins og virðist vera stefnan í þessu plaggi, svo að það verði líkt því sem gerist í Norðvestur-Evrópu? Í Noregi fjórfaldaðist það frá því sem var áður en menn lögðu sæstreng og fóru að selja toppana út. Nú er það einfaldlega orðið þannig að Noregur er ekki samkeppnishæft til fyrirtækja í orkuvinnslu og fjölskyldur eru ekki í standi til þess, þrátt fyrir ágæta velmegun í því landi, að hita upp húsin sín. Þar skjálfa menn bara þegar eru kuldaköst, fara inn í eitt herbergi og kveikja upp í arninum. Er það leiðin sem við ætlum að fara? Ég trúi því ekki að það sé hin raunverulega stefna, en maður óttast að það geti orðið afleiðingin af þessu.

Hvernig ætlum við að koma arðinum til þjóðarinnar? Er það í gegnum auðlindasjóð eða gæti til dæmis hugsast að við værum með virka eigendastefnu? Við framsóknarmenn höfum til dæmis lagt til að ekki verði gefin út ný virkjanaleyfi til fyrirtækja sem eru yfir ákveðnum mörkum, 5, 10, jafnvel 15 megavöttum, að slík fyrirtæki verði að 2/3 hlutum minnst að vera í eigu ríkis og sveitarfélaga, eða fyrirtækja í slíkri eigu, til að tryggja að arðurinn renni til þjóðarinnar, til almennings í landinu. Þá komum við í veg fyrir að þessi auðlind fari á markað með einum eða öðrum hætti, en höldum engu að síður áfram á þeirri braut sem við höfum verið á á síðustu árum að virkja og nýta auðlindina til hagsbóta fyrir almenning í landinu.

Varðandi sæstrenginn held ég að það sé mikilvægt — og við höfum lagt það til í þingsályktunartillögu sem lögð var fram í síðustu viku — að allir aðilar verði kvaddir að borðinu. Að þar verði ekki einungis Landsvirkjun og ekki einungis iðnaðarráðuneytið heldur verði myndaður um það starfshópur þar sem öll orkufyrirtækin og fleiri aðilar koma að því að skoða þjóðhagslega hagkvæmar og þjóðhagslega neikvæðar hliðar þess. Í þessari áætlun er meðal annars fjallað um þessa virkjanaútgáfu.

Mig langar aðeins að koma inn á það í sambandi við vernd og nýtingu. Verndun er ákveðin nýting auðlindarinnar, það er algjörlega rétt. Tökum dæmi af bónda og landeiganda sem ég þekki. Hann hefur hug á því að virkja bæjarlækinn hjá sér og ýmsir aðilar snúast gegn því. Þar á meðal er ferðaþjónustufyrirtæki sem snýst algjörlega gegn því að þarna verði sett upp 10–15 megavatta rennslisvirkjun. Sama ferðaþjónustufyrirtæki fer um land þessa manns án þess að spyrja um leyfi, án þess að greiða krónu í leigu eða afnotarétt til landeigandans. Einu umhverfisáhrifin af þessari nýtingu, ef farið yrði út í hana, herra forseti, verndun þessa svæðis, eru lýti vegna verulegrar umferðar frá þessu eina ferðaþjónustufyrirtæki. Er þetta hin raunverulega stefna sem við viljum hafa? Er ekki betra að allir geti unnið saman, að bæði verði þarna ferðaþjónusta og orkuvinnsla svo að tekjur verði til fyrir það samfélag sem um er að ræða?

Ég held að það vanti svona hluti í þessa orkustefnu. Nú sé ég að það gengur hratt á tímann hjá mér. Ég gæti fjallað um olíusparnaðinn og tekið undir að við þurfum að leita allra leiða til að finna aðra orkugjafa á bíla og skip. Talað er um að stuðla að orkuskiptum í samgöngum og sjávarútvegi. Þá gleymist landbúnaðurinn. Landbúnaðurinn hefur sjálfur lagt fram tillögur um það hvernig hann ætlar á næstu 10–15 árum að framleiða stóran hluta af þeirri orku sem hann notar í dag. Þarna eru tækifæri sem klárlega vantar í þessa orkustefnu, hugsanlega vegna þess að of þröngur hópur hefur unnið þessa skýrslu, en það er þá tækifæri til að taka það inn núna. Ég sé að tíma mínum er lokið, herra forseti, og lýk því máli mínu.