140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[15:52]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum hér skýrslu stýrihóps um heildstæða orkustefnu fyrir Ísland. Svona á sennilega að vinna hlutina. Sennilega eru þessi vinnubrögð, þ.e. að ráðherra leggi fram skýrslu stýrihóps til umfjöllunar í þinginu áður en hin eiginlega orkustefna er samþykkt, til fyrirmyndar því að með þessu móti gefst þingmönnum frá öllum flokkum tækifæri til að taka þátt í umræðunni. Þetta eru sem sagt fyrirmyndarsamræðustjórnmál.

En forseti, mér finnst við ekki hafa tíma í þetta kjaftæði, ef ég má vera hreinskilin, því að tíminn er hreinlega á þrotum. Hnattræn hlýnun er staðreynd, við erum komin fram yfir það sem kallast „peak oil“, og ég bið forseta að afsaka að þetta hugtak er á ensku en hér er átt við hámarksolíuvinnslu heimsins en þeim tindi náðum við 2006. Hér eftir dælum við upp minni olíu en áður og hún verður dýrari en áður. Áhrif þess sjáum við nú þegar á hækkandi olíuverði á heimsvísu sem veldur verðhækkunum á lífsnauðsynjum um allan heim og hækkar lán Íslendinga, svo að því sé líka til haga haldið. Við erum nefnilega enn þá ótrúlega háð olíu.

Á bls. 14 í skýrslunni kemur fram að verðmæti innflutts eldsneytis og smurolíu árið 2009 var 51 milljarður kr., um 1/8 af verðmæti alls vöruinnflutnings þess árs, og við þykjumst vera sjálfbær þegar kemur að orku. Fiskiskipaflotinn okkar notar 29% af olíunni. Í skýrslunni kemur einnig fram að hægt væri að draga úr eldsneytisnotkun fiskiskipa um 5–10% með einföldum sparnaðaraðgerðum eingöngu.

Sá ræðumaður sem var á undan mér í ræðustóli fjallaði um landbúnaðinn og ég var eiginlega hálfsvekkt þegar tími hans var á þrotum. Ég hefði viljað heyra meira af því, því að það efni er kannski eitthvað sem ég saknaði úr skýrslunni.

Í fyrra ræddum við í þinginu tillögu um orkuskipti í samgöngum. Þá stefnu hefði mátt kalla „stefnt skal að“ því að hún hljómaði einhvern veginn þannig að við ætluðum að verða best í heimi — en seinna. Við ætluðum að stefna að því. En það var í raun og veru ekkert kýlt á hlutina og ég spyr: Hvenær ætlum við að fara að gera eitthvað í málunum?

Á bls. 63 í þessari skýrslu er til dæmis bent á — og þetta er bara eitt lítið dæmi af svo fjölmörgum — að reiðhjól á Íslandi bera tolla. Af hverju? Af hverju erum við enn þá að velta þessu fyrir okkur? Þar er bent á að með því að afnema tolla á reiðhjólum mundum við hvetja til þess ferðamáta. Af hverju eru enn þá tollar á reiðhjólum á Íslandi ef okkur er virkilega alvara með þessu? Á hátíðarstundum ræða „grænir“ stjórnmálamenn um að efla þurfi almenningssamgöngur, og það þarf að gera það, það er ekki nóg að segja það. Staðan á höfuðborgarsvæðinu er þannig að unglingar, sem eru þeir helstu sem nota strætó, geta varla farið í bíó klukkan átta á kvöldin því að ef myndin fer yfir hefðbundinn tíma missa þeir af síðasta strætó heim og þá þurfa pabbi og mamma að koma og sækja þá á bílnum sem eyðir olíu og bensíni.

Í skýrslunni kemur einnig fram að árið 2005 voru bara tvö önnur Evrópuríki, Lúxemborg og Liechtenstein, með fleiri bíla en við miðað við fólksfjölda, 658 bíla á hverja 1.000 íbúa. Meðaltalið í öðrum Evrópuríkjum eru 460 bílar á hverja 1.000 íbúa.

Endurnýjanleg orka í samgöngum á Íslandi er innan við 1%. Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins 2009/28/EB á hún að vera að minnsta kosti 10% árið 2020. Hvað ætlum við að gera í þessu? Það ár eiga líka 75% af nýskráðum bílum undir fimm tonnum að ganga fyrir eldsneyti af endurnýjanlegum uppruna. Og við flytjum enn þá nánast eingöngu inn bensínbíla þó að áhugamenn um annað geti svo sem valið sér umhverfisvænni kosti og borgað fyrir það.

Ég hef fjargviðrast svolítið yfir olíunni og hvað við erum háð henni, en það er annað atriði í þessu sem ég vil fókusera svolítið á og það er arðurinn af auðlindinni. Við ræðum hér um orkuauðlindir Íslands, t.d. jarðhita og vatnsafl en hugsanlega líka einhverja framtíðarorkugjafa. En sömu prinsipp gilda um allar auðlindir okkar og þá er mér kannski efst í huga fiskurinn okkar. Prinsippið á að vera það að auðlindirnar eiga að vera í þjóðareigu og þjóðin á að njóta arðsins af þeim skilyrðislaust.

Á bls. 40 stendur, með leyfi forseta:

„Sé orkuverð til dæmis undir markaðsverði rennur samsvarandi hluti auðlindarentunnar til orkukaupandans.“

Þetta finnst mér ansi góð setning og hún er mjög góð lýsing á því hvernig við höfum hagað málum hér; auðlindarentan rennur alltaf til orkukaupandans. Hér á Íslandi hefur stóriðjan fengið orkuna á spottprís og bæklingar með yfirskriftinni Lowest Energy Prices segja allt sem segja þarf.

Forseti. Mér finnst þessi skýrsla ágætisupplýsingarit. Þar kemur margt mjög sláandi fram, í henni er mörg góð fyrirheit og bent á lausnir og leiðir. En nú er komið að aðgerðum, nú þarf að bregðast við. Ég sakna þess að sú ríkisstjórn sem nú situr og segist vera bæði væn og græn sitji ekki bara heldur láti verkin tala. Við höfum ekki allan tímann í heiminum. Forseti. Það er skylda okkar að skilja við jörðina í betra ástandi en við tókum við henni. Það er ekki okkar að virkja allt sem hægt er að virkja, og ég vil benda á það að lokum að verndun er líka nýting.