140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:10]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að það væri út í hött að hækka raforkuverð í landinu til almennra notenda, heimilanna og fyrirtækjanna, annarra en stórnotenda, á næstunni. Menn mega því ekki taka þetta andsvar þannig að ég sé að hvetja til þess að rafmagnsreikningurinn hækki.

Hins vegar er auðvitað ástæða til að við ræðum það einmitt í tengslum við orkustefnu til framtíðar og þetta plagg og kannski enn frekar þegar lögð verður fram stefna í tillögu til þingsályktunar síðar í vetur eða næsta vetur, hvort við ætlum að taka út þennan arð sem ræðumaðurinn hv. talaði um, með lægra raforkuverði, eða hvort við ætlum að taka hann með auðlindarentu sem renni þá til ríkisins með einum eða öðrum hætti, eða til almannafyrirtækis, auðlindasjóðs eða hvað það nú verður. Því það er auðvitað rétt sem menn segja hér, þar á meðal hv. ræðumaður, að einhver hluti af arðinum, af auðlindarentunni, af arði þjóðarinnar fyrir eign hennar í þessu, kemur fram sem lægra orkuverð hér en víðast annars staðar.

Spyrja má hvort þetta sé heppilegt og hvaða afleiðingar þetta hafi til dæmis fyrir raforkunotkun. Er hún hugsanlega meiri en æskilegt er eða skynsamlegt er á Íslandi vegna þess arna? Göslum við með raforkuna? Það má líka spyrja, og það geri ég sem jafnaðarmaður við hv. þingmann sem líka er jafnaðarmaður: Er sanngjarnasta leiðin til að dreifa arðinum af auðlindinni að menn fái hann í hlutfalli við raforkunotkun sína? Væri skynsamlegra að gera það með öðrum hætti?

Ég tek fram að þessi spurning er ekki um morgundaginn, heldur um næstu áratugi og er sú akademíska umræða sem á að fara fram áður en menn taka kúrsinn í efnum af þessu tagi.