140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:14]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski ekki meira í þessu efni að gera en að skipast á almennum skoðunum og velta við steinum því að það er ekki á morgun sem við ætlum að láta rentuna renna alla á einn veg frá auðlindum okkar. Það er hins vegar ekki um að ræða að gera annað hvort, að annaðhvort fari allur arðurinn í orkuverð til almennings eða í auðlindasjóð, því töluvert af honum fer núna til stórnotenda og verulegur hluti hans fer í að fjármagna þá öru orkuuppbyggingu sem við núna stöndum í, fer hreinlega í afborganir af lánum og í vexti af þeim sömu lánum.

Ég held hins vegar að þessi umræða verði meira áberandi á næstu árum og ég held að við eigum að taka hana feimnislaust. Þá þarf ég varla að endurtaka það enn einu sinni að ég er ekki að tala um hækkanir og breytingar á raforkuverði á næstu árum. Framsýnir menn, bæði í skýrslunni og í ræðustólnum, tala um sæstreng til Evrópu. Veit ég vel að í gegnum þann sæstreng á að fara, að minnsta kosti í fyrstu, umframorka á tilteknum tímum sólarhrings eða árs. En sæstrengur til Evrópu þýðir tengingu við evrópskan orkumarkað. Það hefur um leið klárlega áhrif á orkuverðið á Íslandi. Þeir sem tala um sæstreng — þeir sem segja A verða líka að segja B, og með þeim sæstreng verða tengsl við evrópskan orkumarkað örugglega aukin með einhverjum hætti. Mig minnir að Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi forsætisráðherra og öðlingur, hafi einhvern tímann verið að láta sér detta í hug að rafmagn mætti flytja með gervihnetti. Hver veit nema það verði einhvern tímann. Við erum auðvitað að komast í meiri tengsl við evrópskan og alþjóðlegan orkumarkað en verið hefur og þar með þurfum við að setja okkur ákveðið mark í þeim (Forseti hringir.) efnum.