140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski rétt sem hv. þingmaður sagði, við erum að skiptast á skoðunum, velta við steinum og hugsa til framtíðar. Ég hygg að við séum sömu skoðunar hvað varðar auðlindasjóð, almennan, sama hvort hann er fyrir þetta á komandi árum, fjarskiptarásir eða fiskinn í sjónum. Við þurfum ekki að diskútera það mikið en eins og hv. þingmaður gat um greinir menn stundum á um hvað stórnotendur greiða. Ég sagði áðan að ég vildi ekki trúa öðru en að samningamenn Íslands sem hafa samið um orkusölu til stórnotenda hafi gengið þar eins langt og hægt var á þeim tíma og í staðinn fyrir það sem við erum að selja þessa orku, hvort sem hún er of lág eða væri 10%, 20% hærri eða hvað, erum við með mikla atvinnusköpun. Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, er verið að breyta íslenskum auðlindum í útflutningstekjur sem skapa gjaldeyri sem okkur Íslendinga sárvantar svo í dag. Þetta þurfum að gera áfram, að nýta auðlindir okkar á sjálfbæran og fínan hátt, taka ekki allt frá komandi kynslóðum heldur nýta þær á sjálfbæran hátt, til að breyta þeim í útflutningstekjur, gjaldeyri. Ég sé ekki, virðulegi forseti, hvernig við Íslendingar ætlum að saxa á þá 1.500 milljarða sem íslenska ríkið skuldar í dag öðruvísi en að breyta auðæfum okkar í gjaldeyrisskapandi útflutningstekjur, skapa atvinnu fyrir einhverja af þeim tæplega 15 þúsund eða 13 þúsund einstaklingum sem eru atvinnulausir.

Hv. þingmaður ræddi um sæstreng. Ég er sannfærður um að hann kemur. Það yrði örugglega feikilega gott fyrir íslenska orkuframleiðendur að selja orku um sæstreng, t.d. í júní, júlí, ágúst þegar allir eru að keyra kælivélar úti um alla Evrópu og öll vötn hjá okkur sneisafull. Það væri ábyggilega hægt að selja hana á svakalega (Forseti hringir.) góðum prís, og í staðinn kemur öryggið að geta keypt. Það er bara framtíðin (Forseti hringir.) sem segir til um þetta, virðulegi forseti, en þetta er það sem ég vildi bregðast við í andsvari hv. þingmanns.