140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi í svari við andsvari að að sjálfsögðu þurfum við að nýta þau tækifæri sem við eigum til að vinna okkur og framleiða okkur út úr þeim áföllum eða þeirri kreppu sem hefur verið og er á Íslandi. Ég veit ekki hvort við erum sammála um að þau tækifæri sem eru til staðar hafi verið nýtt nógu vel í tíð núverandi ríkisstjórnar eða ekki, en ég tel hins vegar mikilvægt að nýta þær auðlindir sem við eigum til að koma okkur hraðar upp úr þessu en ella.

Mig langar aðeins að velta vöngum með hv. þingmanni yfir einu máli sem ég hef svolitlar áhyggjur af í þessu plaggi sem er „heildstæð orkustefna fyrir Ísland“. Ég finn í rauninni ekki neitt þar sem fjallað er um jöfnun orkukostnaðar í þessu riti, þ.e. einhverjar hugmyndir sem mark er á takandi um það. Það er áhyggjuefni ef við ætlum að fjalla hér um heildstæða orkustefnu, og að setningin sem um þetta mál stendur sé þessi, með leyfi forseta:

„Að ekki verði gengið á framlegð og arðsemi orkuvinnslu og -sölu vegna byggða- eða atvinnusjónarmiða í héraði, heldur verði markmiðum á þeim sviðum náð með öðrum og almennari hætti.“

Það á sem sagt ekki að ganga á arðinn og framlegðina til að jafna raforkuverðið. Það á sem sagt ekki að breyta — það má lesa það út úr þessu, ég ætla nú ekki að fullyrða neitt — þeim viðmiðunum sem þegar eru í notkun í dag, t.d. hjá Landsneti varðandi flutninginn, en hér stendur: „Er þá átt við reglu um hlutdeild nærsamfélags í auðlindarentu“ o.s.frv.

Það kann að vera að það sé leið að láta nærsamfélag — hvað er nærsamfélagið á Vestfjörðum til dæmis þegar ekki er ein einasta virkjun á því svæði? Er það nærsamfélagið, nær það alveg að Blöndu eða suður að Búrfelli?