140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, aftur að jöfnun orkukostnaðar sem er okkur hugleikin og er enn óþolandi ranglæti. Oft hefur verið talað um að gera meira í þessu. Það hefur verið birt í byggðaáætlunum, þar á meðal í þeirri byggðaáætlun sem við hv. þingmaður og fleiri unnum á síðasta ári þar sem bætt var inn tillögum um jöfnun orkukostnaðar. Síðan er það okkar að fylgja því eftir hvernig það gengur fyrir sig. Inn í þetta voru settar um 1.100 millj. kr. til niðurgreiðslna. Þar að auki — og minnist nú sá þingmaður sem hér stendur þess þegar hann var tiltölulega nýsestur á þing og lenti í því að sitja í iðnaðarnefnd sem tók að breyta raforkulögunum vegna raforkutilskipunar Evrópusambandsins sem var innleidd hér af ákveðnum ráðherrum, sem ég ætla ekki að nefna hverjir voru, en þar var til dæmis sett inn sú gulrót eftir vinnu nefndarinnar, 230 millj. kr. til að auka niðurgreiðslu í dreifbýli og sú upphæð hefur nánast ekkert hækkað, ekki neitt.

Virðulegi forseti. Það sem ég sagði áðan og ég ætla að enda andsvar mitt á að segja, og það er gott að hæstv. starfandi iðnaðarráðherra fylgist með umræðunni, er að við verðum að leita leiða til að vinna þetta hraðar og nota þá þessa skýrslu sem skilað var með tillögum sem fengu mjög góðar viðtökur í atvinnuveganefnd og síðan er það okkar að fylgja því eftir og koma því máli fram. Við höfum ótal samþykktir máli okkar til stuðnings, eins og umrædda samþykkta byggðaáætlun sem ekki hefur gerst í langan tíma að sé samþykkt samhljóða á Alþingi, m.a. vegna þess að við hv. þingmaður og fleiri þingmenn úr stjórnarandstöðunni, ef svo má að orði komast, (Forseti hringir.) sameinuðumst um að setja þessa þætti inn. Við ætlumst til þess að unnið sé eftir þeim og mér finnst að það sé líka vilji hjá (Forseti hringir.) ríkisstjórninni hvað það varðar.