140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Því hefur ranglega verið haldið fram og kemur meðal annars fram í þessari skýrslu og kom fram í máli hæstv. ráðherra að hér á landi hafi í raun og veru ekki ríkt nein orkustefna heldur eins konar stefnuleysi þegar kemur að orkunýtingu í landinu. Þetta er rangt og í besta falli misskilningur og kannski í næstbesta falli eins konar oftúlkun á því sem hefur verið að gerast. Sannleikurinn er sá að við höfum fylgt hér meðvitaðri orkustefnu. Hún hefur gengið út á það að nýta endurnýjanlega orkugjafa sem við höfum hér á landi, raforku og heita vatnið, til fjölbreyttrar atvinnustarfsemi, bæði fyrir stóriðju og annan atvinnurekstur og ekki síður fyrir almenning í landinu. Markmiðið hefur verið að bæta hér lífskjör með því að lækka kostnað almennings og um leið að búa til möguleika fyrir margs konar atvinnustarfsemi til að skjóta hér rótum, skapa atvinnu og verðmæti fyrir þjóðarbú okkar og ekki síst til þess að efla gjaldeyristekjur. Þetta er í dag snar þáttur í útflutningsverðmætum okkar.

Það er því rangt og ósanngjarnt að halda því fram að þótt menn hafi skrifað texta í skýrslu sé verið að leggja drög að nýrri orkustefnu. Fyrir utan það hefur mér heyrst á þeim viðbrögðum sem hafa komið fram, bæði af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra, að þetta sé bara skýrsla og ekki liggi klár stefnumótun þar að baki. Þegar við skoðum þær fjölmörgu tillögur og markmiðslýsingar sem koma fram í skýrslunni, að minnsta kosti þegar þær hafa verið umdeilanlegar, hafa hæstv. ráðherrar rokið á harðaflótta og komið sér undan því að svara fyrir þá stefnumótun sem liggur fyrir. Þetta á að vera eins konar umræðuskjal og lengra er þá málið ekki komið.

Mér finnst stórt orð Hákot þegar hæstv. ríkisstjórn er farin að stæra sig af því að hafa lagt fram orkustefnu, sem er þó engin stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar heldur skjal tiltekins starfshóps, í ljósi þess að hér hefur verið fylgt mjög markvissri orkustefnu þótt hún hafi ekki komið fram í svona myndskreyttri útgáfu eins og hér er um að ræða.

Spurningin núna er þessi: Hvað er fram undan? Hvernig munum við sjá næstu framtíð varðandi orkunýtinguna? Þá vaknar fyrsta spurningin sem ég hélt satt að segja að væri í raun óþörf. Hún er þessi: Eigum við að auka orkunýtinguna? Eigum við að ganga lengra í orkunýtingu? Eigum við að ganga lengra í virkjanaframkvæmdum, bæði þeim sem snúa að vatnsaflinu og heita vatninu?

Nú vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra að þessu: Er það stefna ríkisstjórnarinnar að láta hér gott heita eins og mér hefur fundist koma fram í máli einstakra stjórnarliða í dag þó að þeir hafi ekki verið mjög fjölmennir í umræðunni? Eða er það stefna ríkisstjórnarinnar að ganga lengra í því að nýta þær orkuauðlindir sem við höfum?

Auðvitað mun þetta ráðast mjög af rammaáætluninni sem er núna orðin standard-afsökunin fyrir því að þurfa ekki að svara neinum spurningum sem lúta að framtíðinni þegar kemur að orkunýtingu því að menn þurfi að bíða eftir rammaáætluninni. Það var eiginlega látið í veðri vaka hér af hv. þm. Merði Árnasyni áðan að það væri ekki einu sinni víst að sú áætlun kæmi fram á þessum vetri heldur bara næsta haust. Eða var það … (MÁ: Það var þingsályktunartillagan sem …) — fyrirgefið, þá hef ég misskilið það og biðst nú afsökunar á því. Engu að síður er þetta er allt í fullkominni óvissu.

Hér hef ég vakið athygli á því að í þessari skýrslu, sem á margan hátt er mjög fín og fróðleg samantekt, kemur til dæmis fram að ein forsendan fyrir þeirri arðsemi sem búið er að reikna sig upp í varðandi orkunýtinguna og Landsvirkjun og fleiri slík fyrirtæki sé sú að svissa um það bil helmingnum af orkukostunum úr biðflokknum í væntanlegri rammaáætlun og setja í nýtingaráætlun. Ég hef spurt: Er ætlunin að gera það? Ég gat ekki fundið á hæstv. umhverfisráðherra að mikill hljómgrunnur væri fyrir því, öðru nær. Hennar sjónarmið var greinilega að ganga miklu skemmra.

Ég vil víkja að einu atriði sem hefur ekki komið fram í þessari umræðu og mér finnst ákaflega athyglisvert. Það kom fram í svari hæstv. iðnaðarráðherra við fyrirspurn sem ég lagði fram 14. nóvember síðastliðinn að mjög miklir möguleikar væru á nýtingu gamalla virkjana sem gætu aukið reiðuafl í kerfinu svo um munar. Samkvæmt þessum upplýsingum, ef ég dreg þær saman, má t.d. með stækkun Blönduvirkjunar, sem er reyndar í nýtingarflokknum, auka orkugetuna um 28 megavött, Sigöldustöð má stækka um 50 megavött, Hrauneyjarfossstöð um 70, Sultartangavirkjun um 10 og í Búrfellsvirkjun getum við verið að tala um stækkun upp á 208 gígavattstundir. Ef ég skoða bara þessa virkjanakosti sýnist mér fljótt á litið að við séum að tala um að með bættri nýtingu með því að auka reiðuaflið í kerfinu, eins og þarna er talað um, getum við kannski aukið orkuframleiðsluna um 200 megavött á ári. Það er heilmikið og skiptir miklu máli. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þessu.

Eitt af því sem kemur hins vegar til álita er með hvaða hætti við nýtum okkur þetta og með hvaða hætti við sköpum þær aðstæður að eftirspurn verði eftir þessari auknu orkuframleiðslu. Þá kemur hin viðkvæma spurning, það er spurningin um erlenda fjárfestingu. Í umræðu um allt annað mál hér í dag var meðal annars vakin athygli á ákaflega góðri ritgerð sem Ásgeir Jónsson hagfræðingur skrifaði af öðru tilefni þar sem hann vekur athygli á því að nú standi beinlínis í vegi fyrir slíkri erlendri fjárfestingu hinn pólitíski óstöðugleiki sem sannarlega er í landinu. Hagfræðingurinn segir til dæmis, með leyfi forseta:

„Hins vegar ættu íslensk stjórnvöld að gera það að forgangsverkefni að draga úr þeirri skynjun á pólitískri áhættu sem erlendir fjárfestar hafa hérlendis. Yfirleitt hefur hinn erlendi fjármálaheimur skilning, og jafnvel samúð, fyrir þeim neyðarráðstöfunum sem gripið var til í bankahruninu í október 2008. Margt af því sem hefur verið gert og sagt frá þeim hefur aftur á móti orkað mun meira tvímælis. Það á til að mynda við um yfirlýsingar um ríkisvæðingu orkufyrirtækja og ýmislegt annað sem hefur gefið til kynna mismunun gagnvart erlendum ríkisborgurum.“

Ég vildi draga þetta fram í umræðunni vegna þess að mér finnst það skipta miklu máli. Þetta lýtur að þeirri frumspurningu hvort við ætlum að halda áfram að auka orkugetuna í landinu og hvernig við ætlum þá að nýta hana.

Spurningin sem menn hafa líka velt mjög mikið fyrir sér er þessi og tengist því auðvitað að arður verði af starfsemi orkuvinnslunnar: Hvar á hann að lenda? Ég er þeirrar skoðunar að arðurinn hafi komið notendum hér á landi til góða. Við vitum að meðvituð stefna hefur verið að hafa orkukostnaðinn tiltölulega lágan hér á landi. Það kemur meðal annars fram í þessari skýrslu. Það hefur auðvitað verið hluti af þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt áratugum saman að reyna að standa þannig að orkuvinnslunni að hún nýttist sem best notendunum sjálfum, þar á meðal auðvitað almenningi og fyrirtækjunum í landinu. Auðlindarentan hefur með þeim hætti runnið til fyrirtækjanna, atvinnulífsins og almennings.

Mér finnst að í þessari skýrslu sé lagt upp með því að segja: Þetta er ekki mjög skilvirk aðferð, við eigum frekar að hafa orkuverðið miklu hærra, kannski tvöfalt hærra, eins og nálgunin er í raun og veru í skýrslunni, og ráðstafa síðan auðlindaarðinum sem þá verður til með miklu hærra verði í gegnum ríkissjóð og síðan auðlindasjóð og þannig renni hann að lokum með einhverjum hætti til almennings. Ég er ekki sammála því. Ég get alveg tekið undir það að eðlilegt er að menn greiði gjald fyrir nýtingu á þessum auðlindum eins og öðrum, t.d. sjávarauðlindinni, en ég vara hins vegar mjög við því að menn gangi svo harkalega fram að það verði til þess að hér snarhækki orkuverð. Við vitum líka að við höfum verið í samkeppni við margar aðrar þjóðir um að laða til okkar erlent fjármagn sem byggir meðal annars á því að geta nýtt orkuauðlindirnar hér. Það er hætt við því að það mundi heldur betur raskast ef menn gengju harkalega fram.

Að lokum vil ég nefna eitt atriði sem mér finnst skipta máli; að því er vikið í þessari skýrslu og talað um orkuöryggi. Þar vantar mikið upp á víða um landið, m.a. á Vestfjörðum. Þar hafa menn haft uppi hugmyndir um að fara í virkjanaframkvæmdir við Hvalárvirkjun sem kemur ágætlega út úr mati rammaáætlunarinnar. Forsendan fyrir því að hægt sé að gera það er hins vegar að fellt verði niður svokallað tengigjald sem er mikill kostnaðarliður varðandi þá virkjanaframkvæmd. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki koma til greina að það gjald verði fellt niður. Það eru heimildir til þess í raforkulögum. Það gæti verið liður í mikilvægri atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og ekki síður hinu, að tryggja orkuöryggi sem er forsendan fyrir margs konar annarri atvinnuuppbyggingu á landsvæðinu, (Forseti hringir.) fyrir utan að styrkja forsendur þess atvinnulífs sem þegar er starfandi.