140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[17:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góðar og málefnalegar umræður um mótun heildstæðrar orkustefnu fyrir Ísland. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og því skiptir miklu máli að fá umræðu á þessu stigi.

Eins og fram hefur komið er um nokkurt nýmæli að ræða þar sem skýrslan er lögð fyrir þingið til umræðu áður en iðnaðarráðherra gefur út aðgerðaáætlun og endanlega orkustefnu fyrir landið. Um orkuöryggi, orkunýtingu og orkusparnað er mikilvægt að við setjum okkur stefnu en þó er mikilvægast að hér á landi verði sett skýr stefna um hvernig skuli hagað eignarhaldi orkulinda og nýtingu þeirra og um leið tryggja að arður af nýtingunni renni til þjóðarinnar. Sú skýrsla sem hefur verið til umræðu í dag er vissulega stefnumarkandi hvað þessa þætti varðar þó að hún sé ekki lokaútgáfa af orkustefnu fyrir Ísland.

Umræðurnar sem fram hafa farið í dag eru mikilvægt innlegg í þá vinnu sem fram undan er við að setja fram lokaútgáfu af orkustefnunni. Sú vinna þarf að haldast í hendur við gerð rammaáætlunar, orkuskipti í samgöngum, tillögur auðlindanefndar og þá stefnuvinnu sem hér er lögð fram.

Að lokum vil ég þakka stýrihópnum sem hæstv. iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir skipaði árið 2009, þ.e. stýrihópnum um mótun heildstæðrar orkustefnu, fyrir vel unnið verk sem markar tímamót því ekki hefur áður verið sett fram á einum stað heildstæð orkustefna fyrir landið.