140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[17:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera skýran greinarmun á því hvernig ég hef annars vegar túlkað skýrsluna og hins vegar ræður hæstvirtra ráðherra. Það á reyndar ekki við um ræðu hæstv. iðnaðarráðherra, ég hef alveg skilið það þannig að það sé vilji hæstv. iðnaðarráðherra að haldið sé áfram virkjanaframkvæmdum með sjálfbærum og ábyrgum hætti eins og gert hefur verið. Hins vegar var fullt tilefni til að spyrja, eftir ræðu hæstv. umhverfisráðherra og raunar fleiri ræður sem fluttar voru af stjórnarliðum, sem gáfu sterkt til kynna að við værum einfaldlega komin á ákveðna endastöð og það væri óábyrgt gagnvart komandi kynslóðum að halda áfram virkjanaframkvæmdum, að minnsta kosti sem nokkru næmi. Þess vegna var tilefnið til að spyrja mjög brýnt.

Skýrslan er hins vegar ábyrg að því leytinu til að þar er gengið út frá því að það sem nú er búið að skipa í nýtingarflokk verði nýtt. Þeim möguleika er velt upp sem sviðsmynd, til að leiða fram tiltekna arðsemi við virkjanir, að helmingurinn af því sem nú er skipað í biðflokk fari í nýtingarflokk.

Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra varðandi orkuöryggið. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra bendir á að það er dálítið hjákátlegt að tala annars vegar um orkuöryggi, sem byggir þá á því að við þurfum að liggja með miklar dísilbirgðir — og það er einmitt það sem ég var að víkja að þegar ég talaði um orkuöryggið í samhengi við Vestfirði. Þar eru menn með áform um að fara af stað með mikla dísilrafstöðvavæðingu til að tryggja orkuöryggi. Það er út af fyrir sig viðleitni en getur hins vegar aldrei talist viðunandi kostur til lengri tíma litið og alls ekki miðað við þau áform sem uppi eru í þessu plaggi, um að reyna að draga úr dísilnotkun. Það hlýtur því að vera hið rökrétta svar — ef það er ætlun stjórnvalda, og það sem menn eru að boða með þessari skýrslu og þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, að reyna að draga úr þessum jarðefnaeldsneytisgjöfum — að segja: Nei, við förum ekki þá leið að tryggja orkuöryggið með dísilrafstöðvum, við gerum það með því að nýta orkuauðlindirnar okkar íslensku og það gerum við meðal annars með þeim hætti að fella burt tengigjald þar sem það hamlar slíkri notkun.