140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nokkur umræða hefur skapast um fasteignaskatta á hesthús í þéttbýli og hefur komið til umfjöllunar í þinginu. Málið var tekið til umfjöllunar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á mánudaginn var og ég held að það sé óhætt að segja að í þinginu sé góð þverpólitísk samstaða um að leysa úr þessu litla en erfiða máli fyrir ákveðinn hóp.

Það er hverjum manni ljóst að hér er um algerlega óhóflegar hækkanir að ræða og í raun og veru einfaldlega nauðsynlegt að skjóta lagastoð undir það að sveitarfélögin geti hagað þessu með þeim hætti sem hingað til hefur verið, að af hesthúsum séu greiddir skattar eins og af íbúðarhúsnæði, þannig að þetta tómstundastarf fólks verði ekki að forréttindum fyrir hina efnameiri. Ég geri ráð fyrir því að hér verði flutt mál þessu til staðfestingar og vænti stuðnings við það úr öllum flokkum. Þingmenn úr fjölmörgum stjórnmálaflokkum hafa gengið fram og lýst stuðningi við þessa afstöðu og ég geri ráð fyrir að málið gæti fengið skjóta og góða afgreiðslu í þinginu.