140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem halda því fram að þingmenn eigi almennt að gæta orða sinna og mig langar að fjalla um orð hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þegar hann sagði formanni Framsóknarflokksins að þegja. Við framsóknarmenn erum ekkert sérstaklega viðkvæmir fyrir því þó að einhverjir vilji að við þögnum þegar við erum með óþægilegar fyrirspurnir en það sem mér fannst öllu alvarlegra var að hann sagði að flokknum væri meira og minna stjórnað úr Hádegismóum og reyndi þar með að spyrða flokkinn við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta er tilraun vinstri manna þegar Framsóknarflokkurinn er að stækka og ná vopnum sínum að ýta honum yfir til hægri en Framsóknarflokkurinn hefur gert það sem ég tel að hann eigi að gera, að sýna á sér vinstri hliðina. Sérstaða Framsóknarflokksins er vinstra megin og við höfum upp á síðkastið sýnt að við erum frjálslyndur vinstri flokkur og viljum vera þar í flóru stjórnmálanna.

Ég vildi koma þessu á framfæri vegna þess að orð hv. formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ekki fengið nægilega mikla umfjöllun í fjölmiðlum landsins og þeim hefur ekki verið svarað.