140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við eigum málshátt sem segir að glöggt sé gests augað. Ástæða er til að hafa það í huga þegar við skoðum niðurstöðu úr nýlegri yfirferð mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á ástandi mannréttindamála á Íslandi. Sú niðurstaða var birt í upphafi þessarar viku. Þar er vikið að ýmsum þáttum og gerðar athugasemdir við eitt og annað í samfélagi okkar varðandi meðal annars jafnréttismál og gagnrýndur launamunur kynjanna hér. Vikið er að ástandi í fangelsismálum sem við þingmenn þekkjum mætavel og þjóðin öll að hefur verið í miklum ólestri. Vakin er athygli á því landlæga kynþátta- og útlendingahatri sem hefur viðgengist hér og er ástæða til að nefna þjóð nokkra, Írana, sem nefnir það sérstaklega og taka það til fyllstu umhugsunar þegar við fáum ábendingar úr þeirri átt í þessa veru. Kanadamenn benda okkur á að hér sé mikill skortur á sjálfstæðri og óháðri málsmeðferð í úrskurðarmálum í málefnum flóttamanna. Það er mál sem við þekkjum vel og vitum af þeim brotalömum í samfélaginu. Margar þjóðir heimsins benda á og gagnrýna hátt brottfall barna innflytjenda úr skólum hér á landi. Þetta eru allt atriði sem er verðugt að hafa í huga.

Það er líka bent á að hér á landi er staða mannréttindamála mjög góð að ýmsu leyti. Í jafnréttismálum erum við til fyrirmyndar. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir var skipuð í stöðu forsætisráðherra fyrst íslenskra kvenna vakti það athygli og virðingu Kanadamanna. Hér er sérstaklega vakin athygli á stöðu samkynhneigðra og því hvernig við höfum staðið að þeim málum. En það vekur líka athygli að nágrannar okkar, Norðmenn, nefna aðgang almennings að samningu nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland. Það er virðingarvert að fá slíkt álit frá frændum okkar vegna þess að myndarlega hefur verið staðið að samstarfi við þjóðina í þeim efnum og (Forseti hringir.) er mikilvægt að halda því áfram.