140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt í þessum sal um skuldavanda heimilanna. Frá því að nýkjörið þing tók til starfa fyrir þremur árum hafa margir fundir, m.a. í þáverandi félagsmálanefnd og núverandi velferðarnefnd, farið í að ræða þetta stóra og mikla mál. Í upphafi komumst við að þeirri niðurstöðu að til þess að eitthvert vit væri í umræðunni og þeim tillögum sem mundu svo fylgja í kjölfarið þyrftu að liggja fyrir upplýsingar um það í hverju skuldavandinn væri fólginn, þ.e. að finna út hverjar skuldirnar eru. Það mál, til að upplýsa það, er enn á borðinu hjá okkur. Vissulega fór Seðlabankinn í athugun á þessu máli og lagði fram ákveðna greiningu. Síðan var Seðlabankanum gert að eyða þeim gögnum vegna kröfu frá Persónuvernd. Enn erum við á sama stað, okkur vantar upplýsingar til að geta tekið ákvörðun um hvort frekari aðgerða er þörf. Hver bendir á annan og hér í þinginu liggja fyrir tvö mál þess efnis að farið verði í slíka upplýsingaleit. Þessi mál hafa verið lögð fram ítrekað en þau hafa ekki fengist afgreidd héðan úr salnum.

Mig langar að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hvernig málin standa og hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að til að hægt sé að taka vitræna umræðu á Alþingi og til að hægt sé að rökstyðja einhverjar ákvarðanir, annaðhvort um að ekki sé þörf á frekari aðgerðum eða þá að þörf sé á frekari aðgerðum, og upplýsingar liggi fyrir.

Nú er mér sagt að Hagstofan sé að safna saman einhverjum gögnum og mér er jafnframt sagt að sú athugun Hagstofunnar taki heilt ár. Ég tel, frú forseti, að við höfum ekki tíma til að bíða í heilt ár eftir þessum upplýsingum og spyr því hv. þingmann hvort við eigum ekki að leggja saman af stað enn einu sinni í þann leiðangur að reyna að afla okkur einhverra upplýsinga svo að við getum tekið vitræna ákvörðun.