140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Undir þessum dagskrárlið er farið yfir víðan völl og ætla ég aðeins að beina athyglinni að einu máli, þ.e. hinum mikla samfylkingarspuna sem er nú búið að setja af stað. Sá spuni gengur út á að hægt sé að kjósa hér um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum. Svo hart kveður við í þessum spuna að sjálfskipaður aðaltalsmaður ríkisstjórnarinnar var kvaddur í viðtal á eina útvarpsstöðina í morgun þar sem hann fór fögrum orðum um að það væri eins og að drekka vatn að fara með þessi mál í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Allir vita, frú forseti, að þetta er ógjörningur því að Samfylkingin og Vinstri grænir vita ekki hvað ætti að kjósa um í þeirri kosningu. Þetta mál er í fullkomnu uppnámi. Það get ég vottað sem nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta mál er olnbogabarn og verður olnbogabarn og er mál sem ríkisstjórnin situr uppi með góðu heilli því að hún brýtur oft lög og hefur ekki lotið úrskurðum og dómum Hæstaréttar eða annarra og eins á að fara með þetta mál.

Þetta var ekki erindi mitt hingað upp en ég vildi svara þeim spuna sem komið hafði hér fram fyrr í þessum umræðum.

Nú ætla ég að slá á jákvæða strengi og benda á þá atvinnugrein sem hefur staðið sig mjög vel hér á landi þrátt fyrir hrunið. Það eru loðdýrabændur. Árið 2010 fór velta loðdýrabænda í fyrsta sinn yfir 1 milljarð kr. í dýrmætum gjaldeyri. Þær fréttir bárust í gær að fyrir árið 2011 fór velta þeirra yfir 1,5 milljarða og er spáð 40–45% aukningu á þessu ári. Þessu ber að fagna. Ríkisstjórnin er á móti atvinnuuppbyggingu og hefur ekki gefið þessu gaum. Það er þó ein atvinnugrein sem sýnir mikinn rekstrarhagnað á þessum erfiðu tímum þegar ríkisstjórnin skrúfar allt niður. Ég hvet (Forseti hringir.) loðdýrabændur áfram til framsýni og frumkvöðlastarfsemi í landinu, (Forseti hringir.) ekki veitir af að einhver atvinnugrein geti sýnt hagnað.