140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að kveðja mér hljóðs vegna ummæla hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar áðan um stjórnlagaþing.

Það er nefnilega svo að fyrir þremur árum þegar mynduð var minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokksins var það eitt af skilyrðum Framsóknarflokksins fyrir stuðningi við þá stjórn að sett yrði á laggirnar stjórnlagaþing hér á landi. Það var sett að skilyrði þá og síðan höfum við unnið að því máli í núverandi ríkisstjórn með þeim árangri að nú liggja fyrir drög að nýrri stjórnarskrá.

Allan þann tíma sem þetta mál hefur verið í vinnsluferli í þinginu hefur verið reynt að vinna það með þverpólitískum hætti en allan tímann hefur fulltrúi Framsóknarflokksins gagnrýnt málsframvindu, hvernig haldið hafi verið á því, gagnrýnt það fyrir kostnað o.s.frv. Samt sem áður var það þannig að þegar Framsóknarflokkurinn lagði áherslu á þetta mál í byrjun árs 2009 — hver sem er getur leitað það uppi á netinu — gerði Framsóknarflokkurinn ráð fyrir að skipað yrði 63 manna stjórnlagaþing sem skyldi starfa í að minnsta kosti eitt ár, ef ég man rétt, ef ekki lengur. En svo hefur hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í þessu máli, barist gegn því á öllum stigum og gagnrýnt það fyrir of mikinn kostnað o.s.frv. enda þótt um miklu hóflegri leið hafi verið að ræða.

Menn verða að gera þá kröfu til stjórnmálaflokka að þeir standi við orð sín og að eitthvað sé að marka þá stefnu (Gripið fram í.) sem þeir setja fram. Auðvitað er það rétt sem hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson sagði hér í ræðustól, það er farsælast fyrir Framsóknarflokkinn þegar hann vinnur til vinstri, þá farnast honum vel, það hefur sagan sýnt. Auðvitað er það svo að hér eru flestir í megindráttum mjög sammála um þjóðmálin, flestir sem hér sitja inni eru í hjarta sínu sósíaldemókratar (Forseti hringir.) nema kannski með þeirri undantekningu sem er hv. þm. Vigdís Hauksdóttir.