140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[15:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir að koma með þessa umræðu. Hann nefndi að það vantaði verknám og það er rétt en það vantar líka þjónustunám, þ.e. að menn geti lært að afgreiða í verslun og annað slíkt, það vantar algjörlega hér á landi.

Menntun skapar mannauð og mannauðurinn skapar auðlindir. Það er mannauðurinn sem skapar auðlindirnar, þær koma ekki af sjálfu sér, og vil ég þar nefna hátæknisjávarútveg, hátæknihugbúnaðargerð, hátæknistóriðju og hátækniferðaþjónustu. Allt byggir þetta á menntun og menntakerfið skiptir verulegu máli fyrir þjóðarhag.

Það eru mörg teikn sem segja okkur að það er eitthvað að. Það er eitthvað mikið að. Brottfall er eitt af því. Ólæsi drengja í grunnskóla er sláandi. Við verðum að gera eitthvað í því. Það er örugglega tenging þarna á milli. Drengir sem ekki kunna að lesa og eru komnir upp í framhaldsskóla falla náttúrlega úr skóla — nema hvað. Orsakanna er greinilega að leita í skólakerfinu öllu, í grunnskólanum ekki síður en í framhaldsskólanum.

Brottfall er mjög slæmt. Fyrir einstaklinginn er þetta niðurlæging og þetta er ósigur fyrir fjölskylduna. Oft rofna fjölskyldutengsl og annað slíkt við brottfall og fyrir einstaklinginn er þetta ósigur. Þetta má ekki gerast. Það má ekki brjóta niður ungt fólk áður en það verður tvítugt. Við verðum að laga þetta, við verðum öll að taka saman á því að laga þetta. Við þurfum að hvetja kennarana. Við eigum mjög góða kennara, afburðakennara, en það sést hvergi hvaða kennari er afburðakennari og hvaða kennari er það ekki. Við þurfum við að gera þá sýnilega og við þurfum að styðja kennarana, við þurfum að styðja börnin þannig að við sjáum ekki svona niðurbrot á mannauði.