140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[15:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari umræðu og þakka málshefjanda fyrir að hafa hafið hana. Ég held að þetta sé gríðarlega marghliða verkefni. Það varðar ekki bara skólakerfið, þetta varðar samfélagið. Ef sem sagt 30% þeirra sem skrá sig í framhaldsnám finna sig ekki í því er það ekki bara vandi framhaldsskólans, það er vandi fyrir samfélagið allt. Það er ákveðinn spegill á samfélagið.

Á þessum mótunarárum ungmenna á framhaldsskólakerfið að vera uppbyggilegur farvegur fyrir alla til að örva hæfileika sína. Rannsóknir sýna að þarna skiptir sjálfsmat ungmennanna gríðarlega miklu, að þau finni sig í þessum farvegi. Ef 30% þeirra finna sig ekki er eitthvað mikið að. Ég held að það séu vissulega fjárhagsleg vandræði, námsbækur kosta mikið, heimavist kostar mikið. Það er ekki jafn aðbúnaður þeirra sem eru úti á landi og þeirra sem eru á höfuðborgarsvæðinu og það skiptir máli. Það skiptir máli hvernig við nálgumst hópa eins og námsmenn sem eru af erlendu bergi brotnir. Ég segi að þetta sé samfélagslegt mál, það eru uppeldisþættir, fjárhagsatriði, einfaldlega sálarástand eins og ástarsorg ungmenna sem getur spilað inn í. Við höfum lesið rannsóknir um það. Það verður að taka allt þetta alvarlega, þetta eru mótunarárin, en líka verður að taka alvarlega spurningar eins og: Hvernig er samfélagið? Hvaða hugrenningar fara í gegnum hug ungmennis sem er að hætta í námi? Er til dæmis ein spurningin: Af hverju á ég að mennta mig? Getur verið að samfélagið sem við höfum einhvern veginn náð að búa til á áratugum, þetta sveiflusamfélag þar sem gróði er einhvern veginn tilviljunarkenndur og það er mjög tilviljunarkennt hvernig hæfileikar nýtast (Forseti hringir.) og menn sjá ekki alveg hvernig menntun muni nýtast, að þetta óstöðuga samfélag sem við höfum búið til (Forseti hringir.) leiði til þess að ungmenni viti ekki alveg hvernig þau eigi að svara spurningunni: Af hverju á ég að mennta mig?