140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[15:57]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Við ræðum fyrst og fremst brottfall úr framhaldsskólum en gætum í raun líka rætt brottfall úr háskólum og jafnvel úr grunnskólum. Brottfall er svartur blettur á okkar að mörgu leyti ágæta menntakerfi. Þennan blett er búið að ræða mikið og ýmislegt hefur verið gert til að vinna á þessu böli en því miður hafa of mörg vindhögg verið slegin í þessari baráttu.

Í rannsóknum á þessu sviði kemur í ljós að margir samverkandi þættir verða til að ungmenni gefst upp á skólagöngu sinni. Einn þessara þátta er, eins og hér hefur komið fram, hin ríka áhersla samfélagsins á bóknám og hvíta kallinn á kostnað verknáms, listnáms, tæknináms og starfsnáms almennt sem hentar sumum nemendum svo miklu betur en bóknámið.

Annar þáttur er of lítið samstarf heimilis og skóla og oft og tíðum of óljósir rammar utan um daglegt líf unglingsins. Stundum sýnist manni við fullorðna fólkið í lífi ungmenna vera hálfrög við að setja rammann og halda okkur við hann. Ramminn er nefnilega stuðningur í námi án eiginlegrar námsaðstoðar. Ungmenni sem eru að búa sér til mynd af sjálfum sér á þessum þroskaárum sínum þurfa að finna það frá öllu umhverfi sínu að þau skipta máli, þau þurfa hvatningu og leiðsögn til að sjálfsmyndin verði heilbrigð og sterk svo þau þori að taka ákvarðanir sem hjálpa þeim til að fara sínar eigin leiðir sem jafnvel leiða þau gegn straumnum.

Á tímum atvinnuleysis bíður fátt ungmenna utan skólakerfisins. Hætt er við að þau verði óvirk og utan gátta þó að ýmislegt hafi að sjálfsögðu verið gert til að virkja atvinnulaus ungmenni. Til að vinna gegn brottfalli þarf því að vinna með viðhorf, leiðbeina foreldrum, fá hugmyndir frá unga fólkinu, nýta tæknina til að búa til einstaklingsmiðaðar áætlanir fyrir nemendur af ýmissi lengd og ýmissi gerð með nýtingu fjarnáms og samstarfi skóla. Þá þarf nauðsynlega að auka mönnun í skólum svo hægt sé að sinna persónulegum þörfum nemenda og finna tíma til samstarfs heimila og skóla.

Brottfall er sóun á mannauði (Forseti hringir.) og fjármagni. Aðferðirnar til að sporna við því eru nær okkur en við höldum, teygjum okkur í þær (Forseti hringir.) og notum þær.