140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

brottfall í íslenska skólakerfinu.

[16:09]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem farið hefur fram. Hér hafa mörg sjónarmið komið fram um hvað sé til ráða og um það snýst verkefnið. Við vitum að brottfallið er mikið, þannig hefur það verið allt of lengi. Gripið hefur verið til ákveðinna ráðstafana í lögunum um framhaldsskóla, eins og við fórum yfir í umræðunni. Ég legg áherslu á það í þessari umræðu að ég tel að baráttan gegn brottfallinu verði að hefjast miklu fyrr í menntakerfinu. Við þurfum að skoða grunnskólann sérstaklega og vil ég nefna til sögunnar í því sambandi skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar frá 2010 um brotthvarf úr námi meðal 16–20 ára nemenda á Norðurlöndunum. Þar var lagt til að gripið yrði til aðgerða snemma á skólagöngunni, í grunnskólunum og jafnvel allt niður í leikskólana, og lögð áhersla á mikilvægi þess að nám sé á forsendum hvers og eins nemanda til að draga úr líkum á brottfalli.

Ég held að bæta þurfi virkum forvörnum í grunnskólum við þau úrræði sem eru í löggjöfinni í dag þar sem við komum snemma auga á þá nemendur sem eru í áhættuhópi fyrir brottfall. Til eru skimunarpróf fyrir brottfall sem meðal annars íslenskir aðilar hafa þróað og hannað. Norðmenn kaupa nú þessi próf af okkur til að nota í norska skólakerfinu. Þau eru ákveðið skref í þá átt að koma auga á þá sem hjálpa þarf í þessum efnum. Síðan þarf að bjóða heildstæð úrræði sem standa öllum skólum til boða og beina viðkomandi nemendum á rétta braut með aðferðum sem styrkja félagsfærni þeirra með stuðningi gegnum hópráðgjöf, gegnum atferlismótun og ýmsar aðferðir sem nýst hafa vel fyrir börn með hegðunar- og námsörðugleika.

Fjölbreytt námsframboð er vissulega mikilvægt í þessu samhengi en lykilatriði er að skoða hvern einstakling, skoða styrkleika hvers og eins og beina úrræðunum í réttan farveg í samræmi við það.

Ég þakka þá umræðu sem farið hefur fram. Ég tel augljóst að það er þverpólitískur stuðningur við það að grípa til aðgerða og ég skora á okkur öll að taka nú höndum saman með hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra (Forseti hringir.) og efna til átaks sem verður kannski mikilvægasta fjárfestingarátak sem við höfum nokkurn tímann staðið fyrir hér á landi til að ráða niðurlögum brottfalls í skólakerfinu.